Skoðun

Það vantar tvo kílómetra á menntaveginn

Arnór Guðmundsson skrifar

Í síðustu viku stóð Byggðastofnun fyrir Byggðaráðstefnu á Vík í Mýrdal undir yfirskriftinni „Menntun án staðsetningar“. Það var reyndar haft á orði að réttara væri að tala um „Menntun óháð staðsetningu“ sem vísar betur til þeirrar kröfu að fólk á landsbyggðinni búi við jöfn tækifæri til menntunar hvar svo sem það er búsett.

Á ráðstefnunni kom fram að vissulega hefur margt áunnist í að auka menntunartækifæri á landsbyggðinni. Má þar nefna aukna fjarkennslu á framhalds- og háskólastigi, öfluga starfsemi þekkingarsetra víða um land og aukin tækifæri til nýsköpunar í stafrænum hönnunarsmiðjum (Fab-labs) sem staðsettar eru á átta stöðum um land allt. Sem dæmi um grósku í framhaldsskólastarfi á landsbyggðinni er nýleg námsbraut í fjallamennsku við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu á Höfn þar sem 80 nemendur stunda nú nám og komast færri að en vilja.

Það vill hins vegar oft gleymast að menntun kallar á aðra innviði en vegi og ljósleiðara. Vissulega eru samgöngur og fjarskipti mikilvæg fyrir landsbyggðina en hvaða gildi hafa vegirnir ef ungt fólk hrekkst á brott af landsbyggðinni vegna skorts á menntunartækifærum? Það eru líka of mörg dæmi þess að sérfræðingar með háskólamenntun vilja ekki setjast að á landsbyggðinni þar sem þeir treysta því ekki að börn þeirra geti fengið þar nægilega góða menntun.

Efling menntunar á landsbyggðinni krefst stuðningskerfis af hálfu sveitarfélaga þar sem skólastjórnendur og kennarar fá viðeigandi þjónustu hvað varðar þróun þekkingar, kennsluhátta, starfsþróunar og uppbyggingu lærdómssamfélaga í skólum. Einnig þurfa nemendur að hafa aðgang að sértækri þjónustu. Stórauka þarf námsframboð í fjarkennslu og bæta gæði hennar. Þarna ber ríkið ábyrgð til að styðja við sveitarfélög við uppbyggingu menntunarþjónustu, fjölga námstækifærum og efla gæði menntunar.

Því ber að fagna að í nýrri tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036, sem lögð hefur verið fyrir Alþingi, er að finna tillögur sem eru til þess fallnar að styrkja stoðir menntunar á landsbyggðinni. Eigi þær tillögur að ná tilgangi sínum er nauðsynlegt að þeim fylgi fjármagn eins og ætíð er gert ráð fyrir þegar ráðist er í annars konar innviðauppbyggingu. Til að setja hlutina í samhengi þá má áætla að einn kílómetri af bundnu slitlagi á landsbyggðinni kosti um hálfan milljarð króna. Menn blikka varla auga yfir slíkum kostnaði við þjóðveginn. Það hlýtur því að vera hógvær krafa lagður sé einn milljarður á ári í að byggja menntaveginn landsbyggðinni.

Tvo kílómetra í menntun á landsbyggðinni takk!

Höfundur er forstjóri Menntamálastofnunar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×