Erlent

Lögmenn Andrésar prins krefjast frávísunar

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Andrés prins, hertogi af Jórvík.
Andrés prins, hertogi af Jórvík. Getty/Kitwood

Andrés prins, sonur Elísabetar Englandsdrottningar, krefst frávísunar í kynferðisbrotamáli. Prinsinn er sakaður um að hafa misnotað hina 38 ára gömlu Virginu Giuffre þegar hún var táningur. Prinsinn hefur ávallt neitað sök í málinu.

Giuffre kærði Andrés prins fyrir nauðgun í ágúst síðastliðnum en hún sakar Andrés um að hafa brotið á sér í íbúð Ghislaine Maxwell, sem var náin samstarfskona barnaníðingsins Jeffrey Epstein. Hún hefur einnig haldið því fram að Epstein hafi ítrekað brotið á sér, en hann svipti sig lífi í fangelsi í fyrra. 

Lögmenn prinsins segja málsóknina tilhæfulausa og að markmiðið með henni sé að hafa af prinsinum fé. Þá segir að misnotkun Epstein á Giuffre réttlæti ekki það fjölmiðlafár sem tekist hafi að skapa með ásökununum. Þetta kemur fram á vef BBC.

Lögreglan í London hætt rannsókn málsins

Brotin eiga að hafa átt sér stað í íbúð Ghislaine Maxwell, sem var náin samstarfskona Epsteins. Maxwell er í fangelsi og hefur verið ákærð fyrir mansal, en hún er sögð hafa hjálpað Epstein við að finna ungar stúlkur til að taka þátt í ólöglegum kynlífsathöfnum.

Þá heldur Giuffre því fram að prinsinn hafi einnig brotið á henni í glæsihýsi Epsteins á Manhattan og á einkaeyju hans.

Lögreglan í London hefur hætt rannsókn á málinu og er yfirstandandi mál því einkamál sem Giuffre höfðaði á hendur prinsinum í New York í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir

Andrés prins þarf að svara spurningum lögmanna

Andrés prins þarf að svara spurningum lögmanna vegna einkamáls gegn honum þar sem hann er sakaður um kynferðisbrot gegn táningi. Það verður hann að gera fyrir 14. júlí næstkomandi samkvæmt úrskurði dómara í New York.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×