Erlent

Rannsóknir samhljóða um ábyrgð manna á hlýnun

Kjartan Kjartansson skrifar
Menn valda loftslagsbreytingum á jörðinni með stórfelldri losun á gróðurhúsalofttegundum, fyrst og fremst með bruna á jarðefnaeldsneyti eins og kolum, olíu og gasi.
Menn valda loftslagsbreytingum á jörðinni með stórfelldri losun á gróðurhúsalofttegundum, fyrst og fremst með bruna á jarðefnaeldsneyti eins og kolum, olíu og gasi. Vísir/EPA

Yfir 99,9% allra ritrýndra loftslagsvísindarannsókna sem hafa verið birtar frá 2012 telja menn ábyrga fyrir hnattrænni hlýnun sem á sér stað á jörðinni. Það er enn hærra hlutfall en í þekktri rannsókn sem vitnað hefur verið til um vísindalega vissu fyrir orsökum loftslagsbreytinga.

Fræðimenn við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum notuðu algrím til að leita að ákveðnum hugtökum sem efasemdamenn nota í fleiri en 88.000 ritrýndar fræðigreinar um loftslagsvísindi sem voru birtar frá 2012 til 2020. Í slembiúrtaki reyndust aðeins fjórar af þrjú þúsund greinum efast um ábyrgð manna á hlýnun jarðar.

Í bunkanum öllum voru 28 greinar sem lýstu efasemdum, annað hvort opinskátt eða undir rós. Þær voru allar birtar í smærri vísindaritum.

Rannsóknin var nokkurs konar framhald á eldri rannsókn frá 2013 þar sem höfundar komust að þeirri niðurstöðu að 97% vísindarannsókna sem voru birtar frá 1991 til 2012 væru á einu máli um að athafnir manna yllu loftslagsbreytingum.

„Við erum svo gott sem fullviss um að samkomulagið sé vel yfir 99% núna og þá er málinu meira að minna lokið hvað varðar raunverulegar almennar umræður um raunveruleika loftslagsbreytinga af völdum manna,“ segir Mark Lynas, aðalhöfundur rannsóknarinnar, í tilkynningu á vef Cornell-háskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×