Í skýrslunni segir að þegar nýjar skuldbindingar ríkja hafi verið teknar með í reikninginn sé útlit fyrir að hitastig á jörðinni muni hækka um 2,7 gráður, að því er segir í skýrslunni, Emissions Gap Report 2021: The Heat Is On. Skýrslan er kynnt í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar COP26 sem hefst í Glasgow í næstu viku.
Niðurstöður skýrslunnar eru að viðbætur við fyrri fyrirheit aðildarríkja feli aðeins í sér 7,5 prósenta aukalegan niðurskurð losunar gastegunda sem valdi gróðurhúsaáhrifum miðað við fyrri skuldbindingar. Hins vegar sé þörf á 30 prósenta niðurskurði til þess að markmið Parísarsamningsins um tveggja gráðu hlýnun jarðar og 55 prósenta niðurskurð losunar til að ná 1,5 gráðu markmiði.
Engin nettó losun getur skipt sköpum
Skýrslan sem kemur út í tólfta sinn er gefin út í aðdraganda Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP26).
„Komist er að þeirri niðurstöðu að fyrirheit um enga nettó losun geti skipt miklu máli. Ef þau fyrirheit sem liggja fyrir ná fram að ganga gæti hlýnunin minnkað um hálfa gráðu og numið 2.2°C fram að aldamótum. Hins vegur eru slík fyrirheit oft og tíðum loðin, ófullkomin og engar raunhæfar aðgerðir fylgja þeim í landsmarkmiðum ríkja fyrir 2030,“ segir á vef Sameinuðu þjóðanna.
Ekki vandamál framtíðarinnar, heldur samtíðarinnar
Haft er eftir Inger Andersen, forstjóra Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, að loftslagsbreytingar séu ekki vandamál framtíðarinnar heldur samtíðarinnar.
„Við höfum átta ár til þess að helminga losun gróðurhúsalofttegunda til þess að eiga raunhæfa möguleika á að halda hlýnun jarðar innan 1,5°C. Átta ár til að taka saman áætlanir, setja saman stefnumótun, hrinda þeim í framkvæmd og sjá til þess að skorið sé niður. Tif klukkunnar verður sífellt háværara,“ er haft eftir Inger.
Í lok síðasta mánaðar höfðu 120 ríki afhent ný eða endurskoðuð landsmarkmið, en ríkin bera ábyrgð á rúmlega helming losunar gróðurhúsalofttegunda. Að auki hafa þrjú ríki sem eiga aðild að G20 hóp ríkustu landa heims tilkynnt um nýjar mildunaraðgerðir fyrir 2030.
Guðmundur Ingi ræddi um loftslagsmarkmið Íslands á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Þá sagði hann að besta virkjunin væri orkusparnaður.