Annar árásarmannanna var handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins. Þolandinn var fluttur með sjúkrabíl á bráðadeild til aðhlynningar, en lögregla hefur ekki upplýsingar um hversu alvarlega hann er slasaður.
Um klukkan hálf eitt í nótt fékk lögregla þá tilkynningu um „unglingapartý“ í Kópavogi. Tilkynnt var um að húsið sem um ræðir hafi verið troðfullt. Þegar lögreglu bar að garði voru um 200 ungmenni á staðnum og áfengisumbúðir á víð og dreif. Í ljós kom að gestgjafinn var 16 ára. Forráðamaður gestgjafans kom þá á vettvang og við það yfirgáfu partýgestir svæðið. Lögregla hefur sent tilkynningu til barnaverndar vegna málsins.
Í dagbók lögreglu fyrir liðna nótt er þá að finna sjö tilvik þar sem ökumenn voru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.