Innlent

40 nemendur í einangrun eða sóttkví vegna smita í Háteigsskóla

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þetta er ekki í fyrsta sinn í faraldrinum sem grípa þarf til aðgerða í Háteigsskóla.
Þetta er ekki í fyrsta sinn í faraldrinum sem grípa þarf til aðgerða í Háteigsskóla. Vísir/Vilhelm

Um 40 nemendur í Háteigsskóla og nokkrir kennarar eru ýmist í einangrun eða sóttkví en smit hafa greinst meðal óbólusettra nemenda í fjórða, fimmta og sjötta bekk skólans.

Frá þessu greinir Fréttablaðið.

„Þetta byrjaði að sýna sig vegna þess að það voru foreldrar að veikjast af Covid og þá fóru heimilin í skimun. Þá kom í ljós að eitt barn var með mótefni og enginn hafði vitað af því að það hefði fengið Covid. Þannig rúllar þetta af stað,“ hefur blaðið eftir Arndísi Steinþórsdóttur skólastjóra.

Umræddum nemendum er kennt í fjarkennslu en nemendur í fjórða og sjötta bekk verða lausir úr sóttkví í vikunni. Nemendur í fimmta bekk verða hins vegar í sóttkví fram yfir vetrarfrí.

Arndís segir ljóst að veiran dreifi sér hratt meðal barnanna og Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir gleymast í umræðunni um afléttingu sóttvarnaaðgerða að skólarnir séu margir að glíma við þrálát smit.

„Smit eru fátíðari í leikskólum og á unglingastigi en það er töluvert flækjustig núna í þessum aldurshópi. Þetta er í sumum skólum mun þyngri staða en hefur áður komið uppp í þessum faraldri,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×