Það hefur tekið nefndina um tvö ár að fara yfir kvörtun Thunberg og fjórtán félaga hennar. Þau voru á aldrinum átta til sautján ára þegar þau lögðu hana fram árið 2019. Sökuðu þau ríkisstjórni Frakklands, Tyrklands, Brasilíu, Þýskaland og Argentínu um að hafa vitað af hættunni af loftslagsbreytingum um áratugaskeið án þess að draga úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum.
Niðurstaða þeirra átján sérfræðinga í mannréttindamálum sem skipa nefndina var að búið væri að sýna fram á nægt orsakasamhengi á milli skaða sem börn verða fyrir annars vegar og aðgerðaleysi landanna fimm, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.
Þeir féllust aftur á móti á rök ríkjanna að ungmennin hefðu átt að leita til dómstóla í heimalöndum sínum áður en þau kvörtuðu til Sameinuðu þjóðanna.
„Við vonum að þið valdeflist við jákvæðu hluta þessarar ákvörðunar og að þið haldið áfram að láta til ykkar taka í heimalöndum og svæðum ykkar sem og alþjóðlega til að berjast fyrir réttlæti í tengslum við loftslagsbreytingar,“ sagði í niðurstöðu nefndarinnar.
Ungmennin gáfu lítið fyrir slíkt tal.
„Ég efast ekki um að þessi niðurstaða muni plaga nefndina í framtíðinni. Þegar loftslagshamfarirnar verða jafnvel alvarlegri en þær eru nú mun nefndin sjá verulega eftir því að hafa ekki gert það rétta þegar hún hafði til þess tækifæri,“ sagði Alexandria Villasenor frá Bandaríkjunum.
Lögmenn ungmennanna segja að þau ætli að leita til landsdómstóla þó að þau telji að það verði tímafrek og á endanum árangurslítil vegferð. Nefndin hafi í raun sagt börnunum að eyða fleiri árum í að bíða eftir að málum þeirra verði vísað frá dómstólum.
Þrátt fyrir það gæti álit nefndarinnar verið fordæmisgefandi að því leyti að hún taldi sig getað tekið fyrir mál gegn ríkjum jafnvel þó að skaðleg áhrif af losun þeirra á gróðurhúsalofttegundum á börn ættu sér stað í öðru landi.