Innlent

Réðst á dyra­vörð eftir að hafa verið vísað út

Atli Ísleifsson skrifar
Þrír gista fangageymslu vegna ýmissa mála.
Þrír gista fangageymslu vegna ýmissa mála. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu handtók í gærkvöldi eða í nótt mann sem hafði ráðist á dyravörð skemmtistaðar eftir að dyravörðurinn hafði vísað honum af staðnum.

Frá þessu segir í dagbók lögreglu og er tekið fram að maðurinn megi búast við að verða kærður fyrir líkamsárás. Ekkert er tekið fram um tímasetningar í dagbók lögreglu að þessu sinni, einungis að málin hafi komið inn á borð lögreglu frá klukkan 17 í gær og fram á morgun.

Lögregla handtók einnig mann vegna gruns um líkamsárás í vesturbæ Reykjavíkur og var maðurinn vistaður í fangageymslu.

Einnig var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir í miðborg Reykjavíkur. Þar hafði lögregla afskipti af manni og konu. Í dagbók lögreglu segir að maðurinn verði kærður fyrir brot á vopnalögum, vörslu fíkniefna og þjófnað en hún kærð fyrir vörslu fíkniefna.

Í hverfi 109 var tilkynnt um hóp ungmenna sem var að reyna að komast inn í bíla. Segir að lögregla hafi verið „upptekin í öðru“ og var málinu ekki sinnt að svo stöddu.

Alls gista þrír fangageymslu vegna ýmissa mála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×