Innlent

Ó­vissu­stigi al­manna­varna lýst yfir vegna veðurs

Eiður Þór Árnason skrifar
Óveðri er spáð á Norðurlandi á morgun.
Óveðri er spáð á Norðurlandi á morgun. Vísir/vilhelm

Vegna slæmrar veðurspár á morgun 28. september hefur ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórana á Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Vesturlandi og á Vestfjörðum, lýst yfir óvissustigi almannavarna í þessum umdæmum.

Spáð er óveðri sem getur spillt færð og valdið foktjóni, fyrst á Norðausturlandi í nótt sem gengur síðan vestur yfir Norðurland og nær hámarki á Vestfjörðum seinnipart dags á morgun. Eru íbúar á þessum svæðum hvattir til þess að fylgjast vel með veðurspá og færð á vegum.

Víða appelsínugul viðvörun

Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugula viðvörun vegna veðurs fyrir Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra. Viðvörunin er í gildi frá klukkan 10 í fyrramálið fram til 23. 

Gul viðvörun vegna hefur verið gefin út fyrir höfuðborgarsvæðið, Faxaflóa, Norðurland eystra, Austurland að Glettingi og Miðhálendið.

Spáð er norðvestan og vestan 15 til 23 metrum á sekúndu á morgun. Hvassara verður í vindstrengjum norðvestantil, og talsverð eða mikil slydda eða snjókoma um norðanvert landið. Hægari vindur og skúrir eða él sunnanlands. Úrkomuminna og dregur úr vindi seint annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×