Innlent

Þrír handteknir vegna líkamsárásar í Árbæ

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þrír karlmenn voru handteknir í gærkvöldi grunaður um líkamsárás.
Þrír karlmenn voru handteknir í gærkvöldi grunaður um líkamsárás. Vísir/Vilhelm

Þrír karlmenn voru handteknir á tólfta tímanum í gærkvöldi grunaðir um líkamsárás í Árbæ. Mennirnir eru nú vistaðir í fangageymslum lögreglu fyrir rannsókn málsins. Einn maður var fluttur á slysadeild til aðhlynningar fyrir vistun en ekki er vitað um áverka.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Nokkuð virðist hafa verið um að vera á höfuðborgarsvæðinu í nótt en mörg brotanna, sem komu inn á borð lögreglu, tengdust ölvunarakstri. 

Ökumaður var stöðvaður á tíunda tímanum grunaður um ölvun við akstur. Þá var annar stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. 

Afskipti voru höfð af ungum manni á óskráðri Vespu í hverfi 108 um klukkan 17:30 í gærkvöldi. Ungi maðurinn, sem er sautján ára gamall, reyndi að stinga af þegar lögreglan ætlaði að ræða við hann og játaði svo að vespan væri stolin. Lagt var hald á vespuna og foreldrar drengsins upplýstir um málið auk þess sem það var tilkynnt til Barnaverndar.

Ofurölvi maður var handtekinn í hverfi 105 á sjötta tímanum í gærkvöldi og vistaður í fangageymslu. Þá voru afskipti höfð af ölvuðum manni á rafhlaupahjóli í sama hverfi rétt eftir klukkan ellefu í gærkvöldi. Maðurinn sást aka hjólinu fyrir bifreiðar og var nærri búinn að valda stórslysi. Hann var kærður fyrir að stýra hjóli undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. 

Þá var tilkynnt um umferðarslys á Kringlumýrarbraut þar sem ekið var á gangandi mann. Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl á bráðadeild en ekki er vitað um áverka. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×