Skoðun

Skynsamleg varnaðarorð Seðlabankastjóra

Daði Már Kristófersson skrifar

Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri gerir tillögur Viðreisnar um gjaldeyrisstöðugleika að umræðuefni í samtali við Viðskiptablaðið. Þar fer Ásgeir yfir þau skilyrði sem til staðar þurfa að vera til þess að slíkt markmið sé raunhæft. Þau helstu eru ábyrg hagstjórn og endurskoðun vinnumarkaðslíkans. Í umræðum um aukin stöðugleika hef ég einmitt tekið þetta skírt fram, meðal annars hér og hér.

Undir orð Ásgeirs ber því að taka. Við, sem þjóð, þurfum að axla ábyrgð á stöðugleikanum, ef við viljum byggja framtíðina á honum. Þetta gerðu nágrannalönd okkar á Norðurlöndum fyrir rúmum tveimur áratugum. Þau endurskoðuðu aðferðafræðina við gerð kjarasamninga með það fyrir augum að styðja við stöðugleika. Árangurinn af þessum breytingum hefur verið mjög góður. Betur hefur gengið að byggja upp kaupmátt og minni gliðnun hefur orðið milli stétta en hér á landi. Höfrungahlaupið sem einkennt hefur íslenskan vinnumarkað hefur því ekki verið til góðs.

Að sama skapi einkennast stjórnmál á hinum Norðurlöndunum ekki eins mikið af loforðum fyrir kosningar. Ástæðan er einfaldlega sú að allir flokkar vita að óraunhæf loforð munu á endanum koma í bakið á kjósendum. Þeir velja að sýna ábyrgð. Það mundu íslenskir stjórnmálamenn líka þurfa að gera.

Breyting sem þessi krefst samstöðu. Hana þarf að byggja upp. Við munum þó aldrei ljúka því verkefni nema að hefjast handa. Til mikils er að vinna. Framtíðartækifæri íslensks samfélags eru í húfi. Ég er því stoltur af að Viðreisn hafi kjark til þess að leggja í þessa vegferð.

Höfundur er varaformaður Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×