Skoðun

Fangar rétt­meiri en fóstur­börn á Ís­landi

Sara Pálsdóttir skrifar

Undirrituð hefur áður skrifað pistla um rotið barnaverndarkerfi og mannréttindabrot framin þar innan á Íslandi. Gegn saklausum börnum, gegn fjölskyldum í landinu. Barnaverndarstofa er bitlaust bákn, hefur ekki verið falið neinar alvöru eftirlitsheimildir þótt hún sinni sínu takmarkaða hlutverki vel og af fagmennsku. Dómstólar eru meðvirkir með barnavernd og staðfesta nánast ávallt gerðir barnaverndar, sama hversu brotleg meðferðin kann að hafa verið. Lögreglan neitar að bregðast við lögbrotum opinberra barnaverndarstarfsmanna. Mikill ótti er í kerfinu.

Ég sem lögmaður sogaðist inn í þetta kerfi í desember í fyrra. Síðan þá hef ég kynnst kerfinu vel, of vel og ég get með hreinskilni lýst því að nánast hver einasti skjólstæðingur sem ég hef haft í barnaverndarmáli upplifir afskipti og málsmeðferð barnaverndar sem ofbeldi. Og ég er yfirleitt sammála þeim. Það er hægt að gera hlutina á svo miklu vægari og mannúðlegri máta. Þar sem virðing fyrir mannlegri reisn og mannréttindum fólks og meðalhóf, eru virt. Iðulega er það þannig að staða foreldris versnar fremur en að batna, við afskipti barnaverndar. Þannig heggur sá er hlífa skyldi. Frásagnir af þessu eru efni í annan pistil.

Eitt dæmi um alvarleg mannréttindabrot barnaverndar sem viðgangast eru grimmilegar umgengnistálmanir sem ég hef áður fjallað um. Ef foreldri sem misst hefur barn frá sér, iðulega vegna sjúkdómsins alkohólisma, er barninu refsað með því að takmarka umgengni barnsins við foreldri sitt við 2-4 skipti á ári, undir eftirliti, í hrörlegu og kuldalegu húsnæði á vegum barnaverndar. Er þetta gert undir þeim formerkjum að það verði að ,,vernda stöðugleika og ró barnsins í fóstri“ og að markmið með umgengni sé ekki að halda tengslum milli foreldris og barns heldur að barn ,,þekki uppruna sinn“. Þannig má ekki ,,raska ró og stöðugleika barnsins“ með því að virða sjálfsögð og lögbundin mannréttindi þess til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við foreldri sitt með reglubundnum hætti, líkt og kveðið er á um í 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna, sbr. einnig 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 71. gr. Stjórnarskrár Íslands. Hið ólögmæta markmið barnaverndar er því algert tengslarof milli foreldris og barns.

Samt sem áður þykir það t.d. sjálfsagt að rífa barn fyrirvaralaust í faðmi foreldris, úr leikskóla, frá stórfjölskyldunni og planta því hjá fósturforeldrum einhvers staðar lengst út á landi á nýtt heimili, með nýju fólki, á nýjan leikskóla, nýjan landshluta, langt langt frá öllu því sem barnið þekkir og þar sem öll umgengni við foreldri, systkini og/eða stórfjölskyldu er gerð verulega erfið t.d. vegna fjarlægða. Mannréttindadómstóllinn hefur m.a. gagnrýnt svona vinnubrögð barnavernda harðlega í dómum sínum sem fjalla um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu.

Ekki er farið eftir þessum mannréttindum barnanna eða foreldranna þegar umgengni er ákvörðuð. Ekki er einu sinni horft á þessi mannréttindaákvæði þegar slík umgengni er ákvörðuð hjá barnavernd. Þetta hef ég margítrekað bent bæði barnaverndarnefndum, úrskurðarnefnd Velferðarmála, dómstólum og Umboðsmanni Alþingis á. Engum finnst neitt athugavert við það að sleppa því að fjalla um ákvæði Barnasáttmála SÞ sem gildir gagngert um rétt fósturbarna til umgengni við foreldri sitt, þegar slík umgengni er ákvörðuð. Enda gæti sú umgengni sem ákvörðuð er, aldrei fullnægt þeim skilyrðum sem þar koma fram. Dómstólar neita meirað segja að dæma um rétt fósturbarna til umgengni við foreldri, í andstöðu við 70. gr. stjórnarskrár auk 6. gr. Mannréttindasáttmálans. Þrátt fyrir að dómstólar dæmi á hverjum einasta degi í málum sem varða rétt skilnaðarbarna til umgengni við foreldri sitt. Fósturbörn njóta bara ekki sömu sjálfsögðu mannréttinda og aðrir, eins og t.d. aðgengis að dómstólum til úrlausnar um mannréttindi sín.

Þessi mannréttindabrot eru aðeins einn lítill angi af þeim alvarlegu og viðvarandi mannréttindabrotum sem ég sé framin í barnaverndarkerfinu á Íslandi. Og dómstólar bregðast í sínu hlutverki sem verndari þessara mannréttinda.

Saklaus fósturbörn sem hafa misst foreldra sína eða foreldri sitt frá sér, fá ekki að hitta þau – jafnvel þótt foreldrið sé edrú, í langtímabata og góðu jafnvægi. Jafnvel þótt það sé heitasta þrá þessara barna að hitta mömmu eða pabba meira, oftar. Fósturbörn fá einungis að hitta foreldri sitt 2-4 sinnum á ári og undir eftirliti við þvingaðar aðstæður. Fangar í lokuðum fangelsum eiga hins vegar þann lágmarks rétt að hitta barnið sitt einu sinni í viku, í fallegu umhverfi og eftirlitslaust, að því gefnu að foreldri sé edrú og í jafnvægi (að sjálfsögðu). Iðulega eru heimsóknir barna til fanga þó tíðari en það.

Þannig eiga fangar í framkvæmd ríkari rétt til friðhelgis einkalífs og fjölskyldu, ríkari til samvista við börn sín, heldur en fósturbörn eiga við foreldri sitt. Saklaus börn, sem hafa ekkert gert af sér. Samt er þeim refsað með þessum grimmilega hætti. Og foreldrarnir, sem misstu frá sér börnin sín vegna veikinda, þeim er sömuleiðis refsað. Og öllum þeim sem geta gert eitthvað í þessu er slétt sama, gera ekkert. Þetta eru jú bara, réttlaus fósturbörn og eitthvað dópistapakk. Hverjum er ekki sama um þeirra mannréttindi?

Höfundur er lögmaður.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×