Innlent

Tíu greindust smitaðir á Reyðar­firði og skólum lokað

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Reyðarfirði. Ráðist var í fjöldasýnatöku eftir að grunur kom upp um smit í Grunnskóla Reyðarfjarðar í gær.
Frá Reyðarfirði. Ráðist var í fjöldasýnatöku eftir að grunur kom upp um smit í Grunnskóla Reyðarfjarðar í gær. Vísir/Vilhelm

Alls greindust tíu manns með kórónuveiruna á Reyðarfirði eftir fjöldasýnatöku gærdagsins sem ráðist var í eftir að grunur kom upp um smit í Grunnskóla Reyðarfjarðar. Skólum verður áfram lokað í dag á meðan smitrakning stendur yfir.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að bæði séu staðfest smit í Grunnskóla Reyðarfjarðar og á Leikskólanum Lyngholti.

„Að höfðu samráði við smitrakningateymið var ákveðið að hafa bæði grunnskólann og leikskólann lokaðan í dag meðan unnið er að smitrakningu.

Í dag kl. 12 verður boðið upp á sýnatöku fyrir starfsfólk leikskólans og öll börn á leikskólanum. Mikilvægt er að vera búin að bóka sýnatöku á heilsuvera.is og sýna strikamerki til að sýnatakan gangi hratt og vel fyrir sig. Foreldar bóki einnig fyrir börn sín með sama hætti. Þeir sem þurfa aðstoð er bent á símanúmer heilsugæslunnar, 470-1420. Aðrir sem óska eftir sýnatöku eru einnig velkomnir. Það á við um systkini, foreldra, ættingja eða aðra sem hafa verið í nánum tengslum við smitaðan einstakling. Allir sem mæta í sýnatöku kl. 12 þurfa þó að vera komnir með strikamerki í símann, það flýtir fyrir afgreiðslu.

Aðgerðastjórn vill hvetja til ítrustu varkárni í ljósi aðstæðna. Nú er ljóst að mikill fjöldi smita hefur greinst og því mikilvægt að við náum að kortleggja smitin og hefta útbreiðslu sem fyrst. Mikilvægt er að mæta ekki til vinnu ef einkenni gera vart við sig, halda sig þá heima og bóka sýnatöku á heilsuvera. Bíða niðurstöðu heima við og fara áfram að öllu með gát, jafnvel þó niðurstaðan reynist neikvæð,“ segir í tilkynningunni frá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×