Innlent

Kveikti í ruslatunnu hjá Ingólfi og hugðist hita sviðakjamma

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vísir/Egill

Laust fyrir miðnætti í gærkvöldi handtók lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mann við styttuna af Ingólfi Arnarsyni. Maðurinn var í annarlegu ástandi og var búinn að kveikja í ruslatunnu þar sem hann hugðist hita sviðakjamma.

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglu bráðnaði tunnan og kjamminn brann. Maðurinn var vistaður í fangageymslu sökum ástands.

Vestur í bæ voru afskipti höfð af ökumanni bifreiðar sem er grunaður um að hafa ekið á tvær bifreiðar og stungið af. Hann er sömuleiðis grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og/eða lyfja.

Fyrr um kvöldið var tilkynnt um reiðhjólaslys í Mosfellsbæ. Þar hafði kona dottið af hjóli sínu og verkjaði mjög í öxlina. Var hún flutt með sjúkrabifreið á Landspítala.

Tveir voru stöðvaðir á höfuðborgarsvæðinu grunaðir um vímuakstur og þá var einn stöðvaður sem grunaður er um akstur án gildra ökuréttinda. Sá framvísaði erlendu ökuskírteini sem talið er falsað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×