Skoðun

Rekstrar­kostnaður líf­eyris­sjóðanna er síst of hár

Aðalbjörn Sigurðsson skrifar

Í vikunni var því slegið upp á forsíðu Fréttablaðsins að rekstrarkostnaður íslensku lífeyrissjóðanna næmi yfir 25 milljörðum króna á ári. Sú tala var fengin með því að leggja saman raunverulegan rekstrarkostnað sjóðanna, sem nam um 8,8 milljörðum króna í fyrra, og fjárfestingargjöld þeirra, sem námu þá ríflega 16 milljörðum. Vitnað var í Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, sem sagði þennan fjárfestingarkostnað „áhyggjuefni“. En er hann það – og er íslenska lífeyriskerfið dýrt í rekstri. Svarið við báðum spurningum er einfaldlega nei.

Það kostar að veita góða þjónustu

Byrjum á rekstrarkostnaðinum. Lífeyrissjóðir landsins eru tuttugu og einn talsins og rekstrarkostnaður alls kerfisins er eins og áður kom fram innan við níu milljarðar króna. Kerfið er hluti af fjármálamarkaði landsins og þrátt fyrir að rekstur t.d. banka og lífeyrissjóða sé ólíkur er áhugavert að benda á að rekstrarkostnaður Arion banka nam samtals 24,4 milljörðum króna á síðasta ári. Sem er tæplega þrefalt hærri upphæð en sú sem fór í að reka alla lífeyrissjóði landsins.

Lífeyrissjóðirnir veita sjóðfélögum sínum einnig tryggingarvernd ef áföll dynja yfir. Eins og með bankana er rekstur lífeyrissjóða og tryggingafélaga ekki eins – en það er samt áhugavert að sjá að rekstrarkostnaður eins tryggingafélags, VÍS, nam um 5,5 milljörðum í fyrra. Fáir hafa gagnrýnt háan rekstrarkostnað fyrirtækjanna tveggja sem hér hafa verið nefnd til samanburðar, enda veita þau bæði viðskiptavinum sínum fyrirtaks þjónustu.

Við getum líka beitt öðrum samanburði. Sjálfur starfa ég hjá Gildi-lífeyrissjóði þar sem rekstrarkostnaður nam rétt ríflega milljarði í fyrra. Á sama tíma kostaði rekstur VR, þess félags sem Ragnar Þór veitir forystu, tæplega einn milljarð. Ég hef ekki heyrt marga gagnrýna rekstrarkostnað VR enda held ég að félagsmenn fái þar góða þjónustu. Formaður VR áttar sig á að það kostar enda virðist þessi kostnaður VR ekki fara lækkandi.

Það segir reyndar aðeins hluta sögunnar því útilokað er að átta sig á hversu mikið VR greiðir í fjárfestingargjöld fyrir umsýslu á þeim um 12,5 milljörðum sem félagið á í verðbréfum og verðbréfasjóðum. Þær upplýsingar eru ekki birtar í ársreikningum VR því ólíkt lífeyrissjóðum er stéttarfélögum ekki gert að birta þann kostnað opinberlega. Ég vona að einhver sjái um að passa upp á þessar fjárhagslegu eignir félagsmanna VR og tryggja sem besta ávöxtun þeirra. En ég veit líka að sú vinna er ekki unnin ókeypis.

Rekstrarkostnaður er lítill í alþjóðlegum samanburði

Eignir íslenska lífeyrissjóðakerfisins nema í dag um 6.200 milljörðum króna og það gefur auga leið að það kostar að halda utan um slíkt eignasafn. Til að meta hvort sá kostnaður sé of hár hér á landi er þarft að bera hann saman við það sem gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Það gera Samtök atvinnulífsins einmitt í grein sem birt hefur verið á vef samtakanna. Þar kemur í ljós að sameiginlegur rekstrarkostnaður lífeyrissjóða landsins á árunum 2015 til 2019 nam 0,17% af heildareignum. Fjárfestingargjöldin námu til viðbótar 0,06%. Samanlagt nemur kostnaðurinn 0,23% af heildareignum sem er mjög svipað og gengur og gerist í löndum eins og Þýskalandi og Danmörku en mun lægra en til að mynda í Noregi, Finnlandi og Sviss. Stjórnendum íslenskra lífeyrissjóða virðist því hafa tekist að halda rekstrar- og fjárfestingarkostnaði í lágmarki. Þannig að formaður VR ætti frekar að hrósa stjórnendum sjóðanna fyrir vel unnin störf en að segjast hafa áhyggjur af kostnaði sem í öllum samanburði stenst það sem best gerist bæði hér á landi og erlendis.

Höfundur er forstöðumaður samskipta hjá Gildi-lífeyrissjóði.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×