Panjshir-dalur er í raun síðasta landsvæðið í Afganistan sem Talibanar stjórna ekki í dag en þeim tókst aldrei að ná þar tökum í stjórnartíð þeirra frá 1996 til 2001.
Báðar fylkingar segjast vera að vinna en Talibanar virðast hafa yfirhöndina í átökunum í dalnum, sem er mjög erfiður yfirferðar. Reuters hefur eftir talsmanni Talibana að þeir hafi náð tökum á fjórum af sjö héruðum dalsins.
Þá hefur AFP fréttaveitan eftir sérfræðingum að staða andófsmanna í Panjshir-dalnum sé ekki góð. Forsvarsmenn ítalskra hjálparsamtaka sem reka sjúkrahús í dalnum segja Talibana hafa sótt fram og marga þorpsbúa hafa flúið heimili sín.
Andófsmennirnir í Panjshir-dalnum eru leiddir af Amrullah Saleh, fyrrverandi varaforseta Afganistans, og Ahmad Massoud, syni þekkst stríðsherrra sem heitir Ahmad Shah Massoud. Þeir kalla sig National Resistance Front of Afghanistan.

Í viðtali við Fox News sem birt var í gær sagði Milley að hann teldi góðar líkur á borgarastyrjöld og óttaðist að hryðjuverkahópar eins og al-Qaeda og ISIS gætu náð sér á strik á nýjan leik á næstu árum.
Austin Miller, herforingi og yfirmaður herafla Bandaríkjanna í Afganistan, varaði sömuleiðis við mögulegri borgarastyrjöld í Afganistan fyrr í sumar. Það var þó fyrir yfirtöku Talibana sem átti sér stað mun fyrr en ráðamenn vestanhafs óttuðust.
Sjá einnig: Varar við borgarastyrjöld í Afganistan
Bandaríkin gerðu innrás í Afganistan árið 2001. Var það í kjölfar árásar al-Qaeda á Tvíburaturnana í New York en hryðjuverkasamtökin nutu stuðnings og skjóls Talibana í Afganistan.