Viðskipti innlent

Andri Ólafs­son ráðinn til Land­spítala

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Andri Ólafsson starfaði um árabil í fjölmiðlum.
Andri Ólafsson starfaði um árabil í fjölmiðlum.

Andri Ólafsson hefur verið ráðinn til að annast fjölmiðlasamskipti Landspítalans. Þetta staðfestir Andri í samtali við fréttastofu.

Andri hefur að undanförnu starfað sem aðstoðarmaður og upplýsingafulltrúi rektors Háskóla Íslands.

Fyrir það starfaði Andri sem samskiptastjóri VÍS. Hann er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands og hefur áralanga reynslu af störfum við fjölmiðla, meðal annars sem aðstoðarritstjóri 365 miðla, ritstjóri Íslands í dag og fréttastjóri Fréttablaðsins.

Anna Sigrún Baldursdóttir, framkvæmdastjóri skrifstofu spítalans, segir í samtali við fréttastofu að um sé að ræða tímabundna ráðningu til nokkurra mánaða, þar sem Stefán Hrafn Hagalín, deildarstjóri samskiptadeildar spítalans, er á leið í frí.

„Andri er þrautþjálfaður reynslubolti úr fjölmiðlum og samskiptum. Hann er sömuleiðis með góðan bakgrunn í almannatengslum og verður okkur öflugur liðsstyrkur,“ er haft eftir Stefáni Hrafni í tilkynningu á vef spítalans.

Samskiptadeildin sér um fjölmiðlasamskipti og almannatengsl Landspítala og rekur vefsvæði og samfélagsmiðla spítalans ásamt því að framleiða fræðsluefni fyrir sjúklinga og starfsfólk. Þar starfa fimm manns.

Fréttin hefur verið uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×