Breiðablik og KA mætast annan leikinn í röð í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu í dag. Þar sem færa hefur þurft leiki kom upp sú skrítna staða að liðin mætast tvívegis á aðeins fimm daga kafla.
Blikar unnu leikinn á Kópavogsvelli 2-0 og þurfa á öðru slíkum sigri að halda í kvöld þar sem liðið er í hatrammri baráttu um Íslandsmeistaratitilinn. Með sigri stekkur liðið upp fyrir Íslandsmeistara Vals og Víking í töflunni.
Á sama tíma verða KA menn aðeins þremur stigum á eftir toppliðunum tveimur fari svo að þeir landi sigri á Greifavelli síðar í dag.
Kópacabana, stuðningsmannasveit Breiðabliks, ætlar að styðja við bakið á sínum mönnum en þar sem það er ef til vill erfitt að fjölmenna á leik á Akureyri á virkum degi hefur sveitin sóst eftir stuðningi frá erkifjendum KA.
Á Fésbókarsíðunni „Ég er Þórsari“ má finna póst frá einum af höfuðpaurum Kópacabana. Hann les:
Hvort stuðningsfólk Þórs verður við boðinu kemur í ljós síðar í dag en ef til vill heillar það að styðja lið til sigurs gegn erkifjendunum.
Ljóst að Þór Akureyri og KA mætast ekki á næstunni í deildarkeppni þar sem Þór situr um þessar mundir í 8. sæti Lengjudeildar með 19 stig, átta stigum fyrir ofan fallsæti og 16 stigum frá 2. sæti.
Stórleikur KA og Breiðabliks er í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport. Útsending hefst klukkan 17.50 og leikurinn tíu mínútum síðar, klukkan 18.00. Hann verður svo gerður upp með öðrum leikjum kvöldsins í Pepsi Max Stúkunni sem hefst klukkan 20.00.
Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.