Innlent

Rúðubrot, eldur og ónáðaseggir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vísir/Egill

Verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru nokkuð fjölbreytt í gærkvöldi og nótt. Lögregla var meðal annars kölluð til í tvígang vegna manns sem var með ónæði á veitingastöðum í miðborginni. Hefur viðkomandi ítrekað komið við sögu lögreglu.

Í miðborginni var einnig tilkynnt um rúðubrot í skóla en í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði og Garðabæ barst tilkynning um mann á rafhlaupahjóli sem hafði ekið á hjólhýsi og stungið af. Tjón varð á hjólhýsinu og er málið í rannsókn.

Í umdæminu Kópavogur og Breiðholt aðstoðaði lögregla húsráðendur við að vísa manni útaf heimili þeirra en sá hafði gert sig óvelkominn. Þá var tilkynnt um mann að berja á glugga en þegar lögregla mætti á staðinn reyndist vera eldur í herbergi á jarðhæð.

Slökkvilið var kallað út ásamt sjúkrabíl og er málið í rannsókn.

Í umdæminu Grafarvogur, Mosfellsbær og Árbær var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna slagsmála í strætó. Málið var afgreitt með aðkomu foreldra og tilkynnt barnavernd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×