Lífið

Don Everly er fallinn frá

Atli Ísleifsson skrifar
Phil Everly (til vinstri) og Don Everly (til hægri) á tónleikum í Madison Square Garden árið 2003.
Phil Everly (til vinstri) og Don Everly (til hægri) á tónleikum í Madison Square Garden árið 2003. Getty

Bandaríski tónlistarmaðurinn Don Everly, annar Everly-bræðranna, er látinn, 84 ára að aldri. Talsmaður fjölskyldu Everly staðfesti í samtali við bandaríska fjölmiðla um helgina að hann hafi andast í Nashville á laugardaginn, en gaf ekki upp um dánarorsök.

Don Everly og bróðir hans Phil áttu fjölda smella á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar með sveit sinni, The Everly Brothers. Meðal laga sem nutu mikilla vinsælda með sveitinni má nefna Bye Bye Love og All I Have To Do Is Dream.

Phil, yngri Everly-bróðirinn, lést árið 2014, þá 74 ára að aldri.

Í frétt BBC segir að sveitin hafi meðal annars haft áhrif á aðra tónlistarmenn, þeirra á meðal Bítlanna og Simon og Garfunkel.

Árið 1973 kastaðist í kekki milli bræðranna á tónleikum í Kaliforníu þar sen Phil sló gítarinn í gólfið á sviðinu og strunsaði burt. Eftir það töluðust bræðurnir ekki við í um áratug, en sættust þó að lokum.

Everly-bræðurnir voru í hópi þeirra fyrstu sem teknir voru inn í Frægðarhöll rokksins árið 1986. Þá fengu þeir heiðurverðlaun fyrir framlag sitt til tónlistar á Grammy-verðlaunahátíðinni árið 1997.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×