Innlent

Leita leiða til að hafa opið lengur í bænum

Óttar Kolbeinsson Proppé og Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifa
Áslaug átti fund með fulltrúum næturlífsins í dag. En hvenær fær fólk aftur að djamma?
Áslaug átti fund með fulltrúum næturlífsins í dag. En hvenær fær fólk aftur að djamma? stöð 2

Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra fundaði í dag með Sam­tökum fyrir­tækja í veitinga­rekstri (SVEIT), sem hafa lýst yfir mikilli ó­á­nægju með fram­tíðar­sýn sótt­varna­læknis. Hún ætlar að ræða hugmyndir að lausnum við ríkisstjórnina sem komu fram á fundinum til að hafa opið lengur í bænum.

Hún getur þá ekki tekið undir hug­myndir sótt­varna­læknis um að best væri að halda hér svipuðum tak­mörkunum og nú eru í gildi á meðan far­aldurinn geisar enn í heiminum.

„Ég get ekki tekið undir þær til­lögur til lengri tíma, nei. Ég held að allar þessar tak­markanir þurfi að hugsast til skamms tíma, enda er laga­heimildin einungis til þess að taka á­kvarðanir miðað við stöðuna eins og hún er á hverjum tíma,“ sagði Ás­laug í kvöld­fréttum Stöðvar 2.

Á meðal þess sem sótt­varna­læknir leggur fram í minnis­blaðinu er að skemmti­staðir verði á­fram að loka klukkan ellefu á kvöldin. Veitinga­bransinn segir þetta blauta tusku framan í and­lit veitinga­manna og jafn­vel dauða­dóm yfir þeim sem halda úti skemmti­stöðum.

„Það hlýtur að vera mark­mið okkar allra að koma lífinu í sem eðli­legast horf og minnka tak­markanir, hvort sem það er á skóla­haldi eða annarri at­vinnu­starf­semi eins og skemmtana­haldi,“ segir Ás­laug.

Hún sat fund með SVEIT í dag. Hvað höfðu veitinga­menn að segja?

„Þar voru bara mjög lausnar­miðaðar beiðnir um fólk sem er að vinna í at­vinnu­starf­semi með marga í vinnu sem vilja vinna með okkur og koma með lausnir,“ segir ráð­herrann.

„Það eru sömu lausnir og maður hefur verið að reifa og velta upp um hrað­próf og sjálfs­próf og hvort ekki sé hægt að finna aðrar leiðir en að detta kannski í sama far og við gerðum áður en við höfðum svo bólu­setta þjóð eins og við höfum núna.“

Munt þú beita þér fyrir þessum lausnum í ríkis­stjórninni?

„Við erum á fullu að ræða þessar lausnir í ríkis­stjórninni og munum halda því á­fram að reyna að leita annarra leiða og lausna til þess að grípa ekki til mestu í­þyngjandi tak­markana hverju sinni.“

Hún segist þá ekki sjá fram á að til­lögur Þór­ólfs nái fram að ganga. Það sé ekki laga­heimild fyrir heil­brigðis­ráð­herra að taka á­kvarðanir til svo langrar fram­tíðar.


Tengdar fréttir

Við­töl af djamminu: „Fokk Covid“

Mikil gleði og léttir ein­kenndu and­rúms­loftið í mið­bænum í nótt þegar frétta­menn Vísis og Stöðvar 2 litu þar við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×