Innlent

Konu hrint niður stiga

Snorri Másson skrifar
Úr dagbók lögreglu.
Úr dagbók lögreglu. Vísir/Vilhelm

Konu var hrint niður stiga á veitingahúsi í miðbæ Reykjavíkur rétt fyrir miðnætti í gær. Hún fékk höfuðhögg og var meðvitundarlítil þegar lögregla kom á vettvang, og var flutt  á bráðadeild. Ekki er vitað um ástand hennar núna.

Tiltölulega rólegt var hjá lögreglu í nótt enda loka vínveitingastaðir á miðnætti. 

Fyrr um kvöldið hafði maður í annarlegu ástandi verið látinn gista fangageymslu eftir að hafa ekki sinnt fyrirmælum lögreglu.

„Maðurinn hafði kvartað um verk í fæti en vildi ekki þiggja aðstoð. Þá sinnti hann ekki fyrirmælum lögreglu tók rafmagnshlaupahjól og var næstum búinn að aka á gangandi vegfaranda. Maðurinn var vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu,“ segir í dagbók lögreglu.

Þá var tilkynnt um þjófnað í miðbænum á sjötta tímanum, þar sem kona kom inn á veitingastað, stal fartölvu staðarins og hljópst á brott. Öryggismyndavélar voru þó í gangi og vitað er hver konan er.

Loks var maður handtekinn eftir miðnætti grunaður um þjófnað á verkfærum á byggingasvæði í Fossvogi. Sá var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. Í öðrum hverfum borgarinnar var nokkuð um ölvunarakstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×