Innlent

Var stöðvaður með fjóra pakka af kjöti í bakpokanum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vísir/Vilhelm

Lögregla var köllu til laust fyrir miðnætti í nótt vegna þjófnaðar úr verslun í Háaleitis- og Bústaðarhverfi. Þar hafði maður verið stöðvaður á leið sinni út og reyndist hafa sett fjóra pakka af kjöti í bakpoka sinn sem hann hugðist taka ófrjálsri hendi.

Fyrr um kvöldið var tilkynnt um þjófnað í búningsklefa í íþróttahúsi í Breiðholti en þar var tösku stolið sem innihélt meðal annars síma og bíllykla. 

Seinna um nóttina var tilkynnt um innbrot í póstnúmerinu 110 en þar hafði hurð verið brotin upp í íbúð í fjölbýlishúsi og búið að róta í skúffum. Húsráðandi taldi þó að engu hefði verið stolið.

Um kl. 23 var lögregla látin vita um umferðaróhapp á Breiðholtsbraut en ekki varð slys á fólki. Samkvæmt tilkynningu lögreglu virðast tvær bifreiðar hafa lent saman en ökumaður annarar þeirra er grunaður um akstur undir áhrifum.

Fyrr um kvöldið var ung kona stöðvuð í Vesturbænum. Hún er grunuð um akstur undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur án gildra ökuréttinda. Þá reyndi hún að skipta um sæti við farþega í framsæti þegar lögregla kom að bifreiðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×