Erlent

Lýsir erfiðu lífi í ný­­sjá­­lensku leiðinni

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Sigurgeir Pétursson er sjómaður og ræðismaður Íslands í Nýja-Sjálandi.
Sigurgeir Pétursson er sjómaður og ræðismaður Íslands í Nýja-Sjálandi. aðsend/getty/andrew merry

Hin svo­kallaða „ný­sjá­lenska leið“ í bar­áttunni við heims­far­aldurinn, sem margir stjórnar­and­stæðingar hafa talað fyrir í fjölda mánaða, er engin útópía og henni fylgja ýmsir gallar sem hafa farið fram hjá Ís­lendingum í um­ræðunni, að sögn Sigur­geirs Péturs­sonar, ræðis­manns Ís­lands á Nýja-Sjá­landi.

Hann skrifaði grein á Vísi um helgina þar sem hann lýsir lífinu í Nýja-Sjá­landi; miklum göllum sem fylgja lokuðum landa­mærum, afar bágri stöðu ferða­þjónustunnar og hús­næðis­verði, sem hefur rokið upp úr öllu valdi. Öll á­kvarðana­taka stjórn­valda þar úti hafi líka litast af mikilli pólitík.

Sigur­geir kveður upp þennan dóm sinn í lok greinarinnar: „Mér finnst betur staðið að málum á Ís­landi með sótt­varnar­teymið sem tekur pólitík að miklu leyti út úr þessu mjög svo erfiða máli.“

Margir Íslendingar vilja fara nýsjálensku leiðina

Helsti munurinn á þeirri leið sem Ný­sjá­lendingar hafa farið í bar­áttunni við veiruna og þeirri sem ís­lensk stjórn­völd hafa valið er fókusinn á að halda veirunni al­gjör­lega fyrir utan sam­fé­lagið með hörðum að­gerðum á landa­mærunum.

Landa­mæri Nýja-Sjá­lands hafa verið lokuð öllum nema Ný­sjá­lendingum síðan í mars í fyrra og um þá Ný­sjá­lendinga sem vilja koma inn í landið gildir að þeir þurfa að dvelja sótt­varna­hóteli í 14 daga við komuna til landsins. Á móti hafa al­mennt verið mun vægari að­gerðir innan­lands í Nýja-Sjá­landi en á Ís­landi, mun færri greinst með veiruna og þar af leiðandi mun færri sem hafa veikst al­var­lega eða látist.

Gunnar Smári Egils­son, stofnandi Sósíal­ista­flokksins, gerði ný­sjá­lensku leiðina að um­fjöllunar­efni sínu í að­sendri grein á Vísi í síðustu viku þar sem hann harmar það að Ís­land hafi ekki farið sömu leið. 

Gunnar Smári Egilsson vill fara nýsjálensku leiðina. Margir úr stjórnarandstöðuflokkunum hafa talað fyrir svipuðum aðferðum, til dæmis þingmenn Flokks fólksins og Samfylkingarinnar. Stöð 2

Hann vísar þá í að vilji mikils meiri­hluta þjóðarinnar sé sá að herða frekar að­gerðir á landa­mærum en innan­lands. Niður­stöður könnunar Fé­lags­vísinda­stofnunar Há­skóla Ís­lands í apríl síðast­liðnum sýndu að 92 prósent svar­enda vildu frekar harðar að­gerðir á landa­mærum en innan­lands. Gunnari Smára þótti ríkis­stjórnin eiga að biðja þjóðina af­sökunar á að hafa ekki farið þessa leið.

Það er þessi grein Gunnars Smára sem varð til þess að Sigur­geir fann sig knúinn til að lýsa á­standinu í Nýja-Sjá­landi nánar og benda á mikla galla leiðarinnar sem þar var farin.

Kostar um hálfa milljón að koma heim

Fyrst nefnir hann fyrir­komu­lagið á landa­mærunum, sem gerir þeim sem búa í Nýja-Sjá­landi það nánast ó­ger­legt að ferðast nokkuð úr fyrir land­steinana. 14 daga dvöl á sótt­varnar­hótelum við komuna til landsins kosti um 280 þúsund ís­lenskar krónur.

„Það eru einungis 4000 her­bergi sem gegna þessu hlut­verki og ca. 500 þeirra eru ekki á „al­menna markaðinum“ þar sem þau eru frá­tekin vegna sér­stakra til­fella sem fá undan­þágur. Það hafa helst verið „vinir“ ríkis­stjórnarinnar, oft og tíðum mjög ríkir, sem fá slíkar undan­þágur. Her­bergin eru sett á síðu ráðu­neytisins af og til og enginn veit hve­nær. Her­bergin hafa undan­farna mánuði selst upp á ca. ¾ úr sekúndu eftir að þau eru sett i sölu,“ skrifar hann.

Þar hafi svo­kallaðir tölvu­bottar tekið yfir og þegar her­bergi fara í sölu á netinu nái þeir að kaupa þau sam­stundis. Þeir sem ráða yfir slíkum bottum selja síðan her­bergin á okur­verði, oft í kring um 260 þúsund krónur auka­lega.

„Það er því ekki ó­var­legt að á­ætla að Ný­sjá­lendingar sem vilja komast heim, þurfi í dag að borga ca. 550.000 krónur til þess eins að fá að­gang að sótt­kvíar­hóteli, ein­hvern tímann á næstu mánuðum,“ skrifar Sigur­geir.

Á Nýja-Sjá­landi er mjög mikið um inn­flytj­endur og hafa fjöl­margir ekki getað hitt fjöl­skyldu sína og vini vegna á­standsins síðan far­aldurinn hófst. Sjálfur komst Sigur­geir ekki í jarðar­för tengda­móður sinnar og hefur ekki enn hitt afa­dóttur sína, sem fæddist í byrjun síðasta árs.

Hús­næðis­markaður í hakki

Efna­hagurinn úti hefur að sögn Sigur­geirs haldist nokkuð góður. Það skýrist að miklu leyti af því að Nýja-Sjá­land er matar­kista og þar séu ár­lega fram­leiddar mat­vörur sem myndu endast Ný­sjá­lendingum í 13 ár.

Það sé líka vegna mikillar peninga­prentunar stjórn­valda:

„Ríkið dælir tugum milljarða dollara inn í hag­kerfið, nánast vaxta­laust. Þetta hefur leitt til mikilla hækkana á hús­næðis­verði sem hefur að meðal­tali hækkað um 30% s.l. 12 mánuði og er nú orðið nánast ó­gerningur fyrir fyrstu kaup­endur að eignast hús­næði. Einnig hefur mikið af þessum nánast fríu peningum farið i alls­lags við­hald og endur­bætur á hús­næði og er nú nánast von­laust að fá efni eða menn til slíkrar vinnu og verðið hefur rokið upp,“ skrifar hann.

Til saman­burðar má nefna að hús­næðis­verð á Ís­landi hefur hækkað um 16 prósent á síðast­liðnum tólf mánuðum.

Ferða­þjónustan í molum

„Á meðan er ferða­manna­iðnaðurinn í rústum og á sér ekki við­reisnar­von. Ráð­herrar hafa hrein­lega sagt að þegar þeir á­kveða ein­hvern­tímann í fram­tíðinni að opna landa­mærin aftur, sjái þeir ekki fjölda­túr­isma sem hluta af fram­tíðinni. Ferða­þjónustu­fyrir­tækin standa ráð­þrota frammi fyrir þessari fram­tíðar­sýn. Þúsundir fyrir­tækja og tug­þúsundir starfa standa og falla með þessu,“ skrifar Sigur­geir.

Þá sé lúxus­snekkju­iðnaðurinn, sem hafði byggst upp á Nýja-Sjá­landi á síðustu árum og þarfnast mikillar sér­þekkingar, nú hruninn.

„Út frá þessu skapaðist annar iðnaður þar sem Ný­sjá­lendingar voru afar vin­sælir sem á­hafnir á lúxus­snekkjunum, oft i mjög eftir­sóttum og há­launuðum störfum. Þetta er nánast ó­gerningur i dag.“

Sigur­geir vill því meina að ís­lenska leiðin sé betri en sú ný­sjá­lenska þegar allt kemur til alls.

„Ætli Ís­land al­var­lega að skoða „ný­sjá­lensku leiðina“ eins og Gunnar Smári leggur til, mæli ég ein­dregið með því að tekið verði til­lit til þess sem ég hef nefnt i þessum pistli,“ skrifar hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×