Erlent

Mikil hræðsla þegar lestarvagn fylltist af flóðvatni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Gríðarmikil flóð hafa átt sér stað í Kína.
Gríðarmikil flóð hafa átt sér stað í Kína. RPA-EFE/FEATURECHINA CHINA OUT

Mikil hræðsla greip um sig í neðanjarðarlestarkerfi Zhengzhou, höfuðborg Henan-héraðs, í gær þegar vatn tók að flæða stjórnlaust inn í vagna í kjölfar gríðarmikilla flóða af völdum gífurlegrar rigningar undanfarna daga.

Í frétt BBC segir að farþegar í einum vagni hafi ekki vitað sitt rjúkandi ráð er það tók að flæða inn í vagninn. Sumir hafi reynt að flýja á meðan aðrir hringdu í ástvini til að láta vita af sér.

Eftir því sem vatnsmagnið í vagninum jókst minnkaði súrefnismagnið og er haft eftir farþega í vagninum á vef BBC að mikil hræðsla hafi gripið um sig eftir að vatnshæðin í vagninum hækkaði smám saman.

Það tók björgunarmenn nokkra klukkutíma að komast að vagninum umrædda. Gátu þeir gert göt á þak vagnsins og togað farþegana út. Talið er að tekist hafi að bjarga hundruð farþega úr neðanjarðarlestagöngum þar sem vatn flæddi stjórnlaust í gegn.

Talið er að minnst tólf hafi látist og minnst 25 í Henan-héraði vegna flóðanna.

Ríkismiðillinn kínverski CGTN segir að í gær hafi rigningin mælst 201,9 mm á einum klukkutíma, sem er met á meginlandi Kína. Allan daginn mældist rigningin 457,4 mm í borginni. Frá því mælingar hófust í Kína árið 1951, hefur aldrei mælst svo mikil rigning á einum degi og mældist á þriðjudaginn.


Tengdar fréttir

Mesta rigning Kína í þúsund ár

Stór hluti Kína er nú á kafi í vatni eftir gífurlega rigningu undanfarna daga. Umfangsmikið björgunarstarf stendur yfir en veðurfræðingar segja að rigning muni halda áfram í nokkra daga.

Allt á floti í miðhluta Kína

Úrhellisrigning í miðhluta Kína hefur orsakað mikil flóð, þá sérstaklega í Henan-héraði þar sem tíu þúsund íbúar hafa verið fluttir í skjól. Myndir og myndbönd á samfélagsmiðlum sýna hvernig allt er á floti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×