Innlent

Yfir hundrað þjófnaðir og innbrot: „Ekki auglýsa það á samfélagsmiðlum að þið séuð ekki heima“

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Jóhann K

Innbrotahrina gengur nú yfir á höfuðborgarsvæðinu og hafa yfir hundrað þjófnaðir og innbrot verið tilkynnt á síðustu tveimur mánuðum. Lögreglan biðlar til fólks að vera á varðbergi.

„Það er hrina í gangi núna. Við erum komin með talsverða fjölgun í innbrotum undanfarna tvo mánuði,“ segir Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Yfir hundrað mál hafi verið tilkynnt lögreglu síðustu tvo mánuði. 

Mest sé um að ræða þjófnaði á reiðhjólum, rafmagnshlaupahjólum og vestum en einnig hafi verið nokkuð um innbrot í bæði bíla, heimili, byggingasvæði og í geymslur. „Það er verið að taka veiðibúnað og golfsett og bara allt sem hægt er að koma í verð,“ segir Jóhann Karl.

Í hrinunni hafi fólk tapað verðmætum fyrir milljónir. 

Hvað gæti valdið þessari þróun? „Kannski það að í covid voru allir heima en núna eru margir að ferðast um landið eða til útlanda,“ segir Jóhann Karl. Þeir sem eru að verki séu meðvitaðir um stöðuna en lögreglan vinnur nú að því að finna út hverjir það eru. 

„Gangið frá hlutunum ykkar, ekki hafa þetta sjáanlegt, reynið að taka dýr reiðhjól inn til ykkar og kaupið ykkur þykka lása sem ekki er hægt að klippa. Nágrannar fylgist með og ekki vera að auglýsa það á samfélagsmiðlum að þið séuð ekki heima,“ segir Jóhann Karl. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×