Innlent

Segir nefndina hafa vitað af á­sökunum þegar hún réð Ingó

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Tryggvi var formaður þjóðhátíðarnefndar fyrir rúmum áratug.
Tryggvi var formaður þjóðhátíðarnefndar fyrir rúmum áratug. vísir

Tryggvi Már Sæ­munds­son, rit­stjóri Eyja­r.net sem hefur safnað undir­skriftum til að mót­mæla því að Ingólfur Þórarins­son hafi verið af­bókaður af Þjóð­há­tíð, segir að þjóð­há­tíðar­nefnd hafi þegar vitað að Ingó væri um­deildur þegar hún réð hann til að sjá um brekku­sönginn.

Hann skrifaði grein um málið ný­lega þar sem hann segir að hann telji þjóð­há­tíðar­nefnd hafa bognað. Hann skýrði þetta orða­lag sitt betur í Bítinu á Bylgjunni í morgun:

„Það breyttist ekkert í málinu efnis­lega frá því að þeir kynna hann inn. Og þeir vissu alveg af þessum þrýstingi áður en þeir kynna hann, eftir því sem ég best veit,“ sagði Tryggvi.

„Og ef það koma ekki fram nein hald­bær rök og málið kemst ekki á byrjunar­reit í okkar réttar­ríki þá tel ég að það hafi verið að bogna.“

Hann skilaði nefndinni 1.660 undir­skriftum fólks í gær, sem hann kveðst hafa stað­fest að hafi skrifað undir. Þar er skorað á nefndina að snúa við á­kvörðun sinni í máli Ingós og ráða hann aftur til að sjá um brekku­sönginn.

Nefndin tók á­kvörðun um að af­bóka Ingó eftir að hópurinn Öfgar birti yfir tuttugu nafn­lausar sögur kvenna á sam­fé­lags­miðlinum TikTok. Þar saka þær Ingó um kyn­ferðis­of­beldi.

Dómsvaldið færist ekki á samfélagsmiðla

Að sögn Tryggva snýst undir­skrifta­söfnunin ekki um að standa með Ingó og trúa honum frekar en þol­endum heldur að hindra það að menn geti verið „dæmdir á sam­fé­lags­miðlum“ án þess að mál þeirra fari í gegn um réttar­kerfið.

„Það sem ég vil kannski helst ná fram er að vekja at­hygli á því hvert við erum komin þegar við erum komin inn á sam­fé­lags­miðlana með dóms­valdið,“ segir Tryggvi.

Spurður hvort honum þyki sögur kvennanna ekki skipta máli segir hann:

„Jú, sögurnar sem slíkar skipta máli en það er gríðar­lega mikil­vægt að fólk komi fram undir nafni þegar það er með jafn al­var­legar á­sakanir.“

Málið hafi verið „rekið“ á sam­fé­lags­miðlum þar sem meintur brota­maður getur ekki varið sig, ekki á­frýjað „dómnum“ og veit þá ekki hve lengi hann á að af­plána hann.

Þjóð­há­tíðar­nefnd tók við undir­skriftunum í gær en hún hefur enn ekki tekið á­kvörðun um fram­haldið. Önnur undir­skrifta­söfnun fór einnig af stað þar sem nefndin er hvött til að standa við á­kvörðun sína. Fleiri hafa skrifað undir hana, alls rúmlega þrjú þúsund manns.

Leiðrétting: Upprunalega stóð að rúmlega 1.700 hefðu skrifað undir til stuðnings ákvörðun nefndarinnar en þeir eru fleiri en 3.000 þegar þetta er skrifað.


Tengdar fréttir

Skilar skömminni og stendur með þol­endum of­beldis

Rakel María Hjaltadóttir, fyrrverandi kærasta Ingólfs Þórarinssonar, segist hafa verið gjörsamlega eyðilögð frá því að hún las ásakanir á hendur tónlistarmanninum sem er betur þekktur sem Ingó veðurguð. 

Bannaður á böllum í Borgó og MR myndi aldrei ráða hann

Nemendafélag Borgarholtsskóla hefur í átta ár haft fyrir reglu að ráða tónlistarmanninn Ingólf Þórarinsson ekki á ball. Inspector scholae í Menntaskólanum í Reykjavík segir hegðun tónlistarmannsins hafa verið lengi í umræðunni og hann yrði aldrei ráðinn á skemmtun í skólanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×