Erlent

Tveir Banda­ríkja­menn grunaðir um aðild að morðinu á Moïse

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Hér má sá nokkra af þeim sem grunaðir eru fyrir aðild að morðinu á Moïse.
Hér má sá nokkra af þeim sem grunaðir eru fyrir aðild að morðinu á Moïse. AP/Jean Marc Hervé Abélard

Sex manns hafa verið handteknir í tengslum við morðið á Jovenel Moïse, forseta Haítí. Tveir eru karlmenn af bandarískum og haítískum uppruna.

Annar þeirra er bandaríski ríkisborgarinn James Solages. Þessu greinir Mathias Pierre, ráðherra kosningamála á Haítí, frá við fréttastofu AP News.

Pierre vildi þó ekki veita neinar upplýsingar um hinn manninn.

Solages hefur starfað sem lífvörður fyrir kanadíska sendiráðið á Haítí. Sendiráðið hefur ekkert tjáð sig um málið.

James Solages, fyrrverandi lífvörður fyrir kanadíska sendiráðið á Haítí, er meðal þeirra sem grunaðir eru fyrir morðið á forsetanum.Facebook/James Solages

Það var hópur þungvopnaðra manna sem ruddi sér leið inn á heimili forsetans í Port-au-Prince aðfaranótt miðvikudags og skaut forsetann til bana. Hann er talinn hafa verið skotinn tólf sinnum.

Martine Moïse, eiginkona forsetans, slasaðist einnig og var flutt á sjúkrahús. Jomarlie Jovenel, dóttir þeirra, faldi sig í svefnherbergi bróður síns á meðan á árásinni stóð.

Bocchit Edmond, sendiherra Haítí í Bandaríkjunum, telur morðið hafi verið vel skipulagt og framið af atvinnumorðingjum sem höfðu villt á sér heimildir.

Íbúar óttast um líf sitt 

Jan Psaki, talskona Joes Biden, forseta Bandaríkjanna, sagði við blaðamenn í gær að Bandaríkin væru að afla upplýsinga um árásina og lýsti henni sem sorglegri.

Mikill ótti hefur gripið um sig á meðal íbúa Haítí. Marco Destin, íbúi á staðnum, segir fjölskyldu sína ekki hafa hætt sér út úr húsi síðan forsetinn var myrtur, af ótta við að vera sjálf drepin. 

„Allir á heimilinu sofa með annað augað opið. Ef æðsti maður okkar er ekki verndaður, þá höfum við alls enga vernd,“ segir hann.


Tengdar fréttir

Forseti Haítí skotinn til bana á heimili sínu

Jovenel Moïse, forseti Haítí, er sagður hafa verið myrtur í árás í nótt. Hópur vopnaðra manna er sagður hafa rutt sér leið inn á heimili hans í Port-au-Prince í nótt og skotið forsetann til bana og sært Martine Moise, eiginkonu hans, sem sé nú á sjúkrahúsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×