Innlent

Lögregla vísaði hústökufólki úr íbúð í miðbænum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vísir/Vilhelm

Eigandi íbúðar í miðbænum setti sig í samband við lögreglu í gærkvöldi og sagðist hafa haft fregnir af því að fólk héldi sig til í tómri íbúðinni. Lögregla fór á vettvang og fann sannarlega einstaklinga þar fyrir, sem var vísað á brott.

Um kl. 21.30 var tilkynnt um slasaðan mann í póstnúmerinu 108. Reyndist hann hafa hlotið skurð á andliti eftir átök. Gerandinn var handtekinn skömmu síðar og vistaður í fangaklefa.

Fyrr um kvöldið var tilkynnt um „rásandi“ aksturslag ökumanns bifreiðar í póstnúmerinu 104. Skömmu síðar barst önnur tilkynning þess efnis að bifreiðin hefði endað á ljósastaur. Tveir voru í bílnum en báðir neituðu að hafa verið undir stýri.

Voru þeir í annarlegu ástandi og vistaðir í fangageymslum.

Tilkynnt var um þjófnað úr bifreið í póstnúmerinu 105 og innbrot í fyrirtæki í 110. Komust þjófarnir yfir lykla að bifreið sem stóð fyrir utan og óku henni á brott.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×