Innlent

Byssumaðurinn í fjögurra vikna gæsluvarðhald

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Karlmaður vopnaður byssu vakti óhug við Kaffistofu Samhjálpar á mánudag.
Karlmaður vopnaður byssu vakti óhug við Kaffistofu Samhjálpar á mánudag. Vísir/Arnar Halldórsson

Karlmaður á þrítugsaldri, sem var handtekinn með hlaðna skammbyssu við Kaffihús Samhjálpar í hádeginu á mánudag, var á miðvikudag úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Héraðssaksóknari heldur utan um rannsókn málsins og hefur meðal annars farið húsleit og lagt hald á vopn og muni í tengslum við rannsóknina.

Maðurinn er meðal annars grunaður um að hafa ógnað lögreglumönnum með byssunni, og er málið því meðal annars rannsakað sem brot gegn valdstjórn og brot á vopnalöggjöf. 

Heimildir fréttastofu herma að hann hafi verið afar ógnandi og ekki lagt niður vopnið fyrr en sérsveit ríkislögreglustjóra var mætt á staðinn og handtók manninn. Maðurinn, sem er fæddur árið 1992, var ekki færður í gæsluvarðhald í beinu framhaldi.

Lögregla hefur ekki viljað veita neinar upplýsingar um málið en heimildir herma að maðurinn hafi verið leiddur fyrir dómara nú í vikunni.

Heimildir fréttastofu herma að viðkomandi eigi talsverðan sakaferil að baki, meðal annars vegna fíkniefna- og ofbeldisbrota. Þá herma heimildir fréttastofu jafnframt að maðurinn hafi verið handtekinn fyrir hnífaárás á veitingastaðnum Sushi Social við Þingholtsstræti í miðbæ Reykjavíkur í apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×