Íslenski boltinn

Vonar­stjarna Stjörnunnar gleymdi hvað hann var gamall og sagðist eiga fleiri trikk í poka­horninu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Eggert Aron Guðmundsson, vonarstjarna Stjörnunnar.
Eggert Aron Guðmundsson, vonarstjarna Stjörnunnar. Skjáskot

Eggert Aron Guðmundsson nýtti svo sannarlega tækifærið er hann kom inn af bekknum í leik KR og Stjörnunnar í Pepsi Max deildinni. Þessi 17 ára gamli táningur gerði sér lítið fyrir og skoraði sigurmarkið ásamt því að ógna sífellt með hraða sínum og krafti.

Eggert Aron – sem er barnabarn Eggerts Magnússonar, fyrrum formanni KSÍ sem og enska úrvalsdeildarfélagsins West Ham United – átti frábæran leik í Vesturbænum.

Hann kom inn fyrir miðvörðinn Björn Berg Bryde undir lok fyrri hálfleiks. Eyjólfur Héðinsson fór í miðvörð og Eggert Aron á miðjuna. Þar gerði hann KR-ingum lífið leitt og tryggði á endanum frækinn sigur Stjörnunnar.

„Þetta var bara ógeðslega gaman. Gaman að fá traustið til að spila, það er ekkert sjálfsagt að vera 16 – nei ég meina 17 ára – og koma inn á,“ sagði Eggert Aron um tilfinninguna um að skora sigurmarkið í Frostaskjóli.

„Þetta er svona mitt trikk, að þykjast skjóta og varnarmaðurinn býst ekki við því. Geggjað gaman,“ sagði táningurinn um markið sem var einkar snoturt. En á Eggert Aron einhver fleiri trikk í bókinni svona fyrst alþjóð getur séð hans aðal trikk í spilaranum hér að neðan.

„Jájá, örugglega sko – skæri og svona,“ sagði Aron Eggert og glotti áður en hann var nánast rekinn inn í klefa af samherjum sínum til að fagna sigrinum.

Mark Eggerts Arons sem og viðtal eftir leik má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Sigurmark Stjörnunnar og viðtal við Eggert Aron

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir

Stjarnan er þannig fé­lag að það er að­eins litið upp á við

„Það bara eiginlega ekkert betra en að vinna á KR vellinum, held ég. Geggjaðar aðstæður, algjört logn og flottur völlur. Þannig þetta er bara geggjað, “ sagði sigurreifur Haraldur Björnsson að loknum 2-1 endurkomu sigri Stjörnunnar á KR í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×