Innlent

Ógnaði fólki með hlaðinni skamm­byssu á Kaffi­stofu Sam­hjálpar

Atli Ísleifsson skrifar
Atvikið átti sér stað um hádegisbil í dag. 
Atvikið átti sér stað um hádegisbil í dag.  vísir/vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu handtók um hádegisbil mann sem hafði ógnað fólki á Kaffistofu Samhjálpar í Borgartúni með hlaðinni skammbyssu.

Þetta staðfestir Guðmundur Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi í samtali við fréttastofu. Málið sé litið mjög alvarlegum augum.

Guðmundur Pétur segir að enn eigi eftir að ræða við manninn, en hann hefur áður komið við sögu lögreglu. Ekki er vitað hvað manninum gekk til.

Rósa Gunnlaugsdóttir sem hefur umsjón með kaffistofunni vildi lítið tjá sig um málið í samtali við fréttastofu. Töluverður fjöldi fólks hefði verið bæði inni og úti eins og venjulega. Því hefðu orðið fjölmörg vitni að uppákomunni. Að öðru leyti vísaði hún á lögreglu.

Samkvæmt heimildum fréttastofu greip mikil hræðsla um sig meðal gesta.

Guðmundur Pétur segir að vopnið, lítil hlaðin skammbyssa, sé í vörslu lögreglu,

Kaffistofan er fyrir heimilislausa þar sem boðið er upp á morgunkaffi, meðlæti og heita máltíð í hádeginu.

Uppfært 13:38. Tilkynning um málið var send frá lögreglu og á fjölmiðla á öðrum tímanum í dag:

Á tólfta tímanum í dag var tilkynnt um karlmann í nágrenni lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu, sem grunur var um að hefði skotvopn undir höndum. Brugðist var skjótt við og handtók sérsveit ríkislögreglustjóra manninn á göngustíg við Sæbraut skömmu fyrir hádegi.

Lagt var hald á skotvopnið, en ekki er vitað hvað manninum gekk til.

Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×