Innlent

Neitaði að segja til nafns og reyndist eftirlýstur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vísir/Egill

Það var nokkuð annasamt hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt en hún stöðvaði meðal annars ökumann um kl. 21.30, grunaðan um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Maðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð, þar sem hann neitaði að gefa upp nafn og framvísa skilríkjum en í ljós kom að viðkomandi var eftirlýstur.

Var hann vistaður í fangaklefa að lokinni sýnatöku.

Lögregla handtók einnig tvo eftir að hafa borist tilkynning frá einstakling sem sagðist vera á eftir tveimur meintum þjófum sem hann stóð að því að brjótast inn. Ekki kemur fram í tilkynningu frá lögreglu hvort um var að ræða innbrot á heimili, í bifreið eða annað.

Lögreglu barst hinsvegar nokkur fjöldi tilkynninga um innbrot í gærkvöldi og nótt; meðal annars í bílskúr, bifreið í bílstæðahúsi og heimahús í Vesturbænum. 

Þá voru tveir menn handteknir þar sem þeir höfðu farið inn á byggingasvæði í Kópavogi.

Lögregla sinnti einnig útköllum vegna nokkurra slysa, meðal annars eftir að tveir einstaklingar á sömu rafskútunni féllu í lausamöl. Annar var fluttur á bráðamóttöku. Þá var ungmenni flutt á slysadeild eftir að hafa lent á höfðinu á trampólíni.

Tveir voru einnig fluttir á bráðamóttöku eftir umferðaróhapp á Miklubraut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×