Fótbolti

FH færi til Noregs og Breiðablik til Austurríkis en Stjarnan heppnari

Sindri Sverrisson skrifar
Nú er orðið ljóst hverjum Blikar gætu mætt í 2. umferð Sambandsdeildar Evrópu.
Nú er orðið ljóst hverjum Blikar gætu mætt í 2. umferð Sambandsdeildar Evrópu. vísir/hulda margrét

Nú er orðið ljóst hvaða liðum íslensku liðin fjögur sem leika í Evrópukeppnum í fótbolta karla í sumar geta mætt vinni þau fyrstu mótherja sína.

Valur, FH, Stjarnan og Breiðablik eru fulltrúar Íslands í Evrópukeppnunum í sumar. Valur leikur í undankeppni Meistaradeildar Evrópu en hin þrjú liðin hefja leik í 1. umferð undankeppni hinnar nýju Sambandsdeildar Evrópu.

Valur mætir Dinamo Zagreb í 1. umferð Meistaradeildarinnar og á því gríðarlega erfitt verkefni fyrir höndum. Sigurliðið úr einvíginu fer til Kýpur í 2. umferð, í einvígi við Omonia.

Leikir Vals og Dinamo Zagreb eru 6. eða 7. júlí og 13. eða 14. júlí. Leikirnir í 2. umferð verða svo 20. eða 21. júlí og 27. eða 28. júlí.

Stjarnan færi til Lúxemborgar

Ef að Valur tapar gegn Dinamo Zagreb þá fer liðið í 2. umferð Sambandsdeildarinnar og mætir Bodö Glimt frá Noregi eða Legia Varsjá frá Póllandi.

FH mun mæta norska stórliðinu Rosenborg ef liðið vinnur Sligo Rovers í 1. umferð.

Breiðablik mætir Racing Union Luxemborg í 1. umferð og sigurliðið mætir Austria Vín í næstu umferð.

Stjarnan var ívið heppnari þegar dregið var í dag, slapp til að mynda við Gent frá Belgíu, en mætir Dudelange frá Lúxemborg takist liðinu að slá út Bohemians frá Írlandi í 1. umferð.

Í Sambandsdeildinni verður fyrsta umferð leikin 6./7. júlí og 13./14. júlí. Önnur umferð verður svo leikin 22. og 29. júlí. Hvert einvígi telur tvo leiki, á heima- og útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×