Íslenski boltinn

Danskur miðju­maður með átta A-lands­leiki til liðs við Stjörnuna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sloth í leik með Silkeborg.
Sloth í leik með Silkeborg. Lars Ronbog/Getty Images

Miðjumaðurinn Casper Bisgaard Sloth hefur samið við Stjörnuna um að leika með liðinu út tímabilið í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu.

Hinn 29 ára gamli Casper Sloth er ólíkur mörgum leikmönnum sem koma hingað til lands en hann á að baka átta A-landsleiki fyrir danska landsliðið sem og 35 yngri landsleiki.

Sloth hefur verið mikið meiddur undanfarið en hann spilaði sinn fyrsta A-landsleik aðeins tvítugur að aldri. Á þeim tíma lék hann stórt hlutverk með AGF í dönsku úrvalsdeildinni, þaðan fór hann til Leeds United á Englandi árið 2014.

Tveimur árum síðar gekk hann í raðir Álaborgar en var kominn til Silkeborg ári síðar. Árið 2019 samdi hann við Motherwell í Skotlandi. Eftir eitt tímabil í Skotlandi samdi hann við Notts County sem spilar í neðri deildum Englands.

Í fyrra samdi hann svo við Helsingör í Danmörku en entist stutt líkt og hjá Silkeborg, Motherwell og Helsingör. Sloth er nú mættur til Íslands til að reyna endurvekja ferilinn.

Hann fær leikheimild þegar félagaskiptaglugginn hér á landi opnar þann 1. júlí og verður því löglegur með Stjörnumönnum er þeir taka á móti Keflvíkingum í því sem reikna má með að verði botnbaráttuslagur þann 3. júlí.

Eftir skelfilega byrjun vann Stjarnan loks leik í gær er Íslandsmeistarar Vals heimsóttu Garðabæinn. Fór það svo að Stjarnan vann 2-1 og er nú með sex stig í 10. sæti að loknum átta umferðum.


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×