Innlent

Úr­skurðaður í gæslu­varð­hald til föstu­dags vegna hnífs­tungunnar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Árásin átti sér stað fyrir utan veitingastaðinn Fjallkonuna.
Árásin átti sér stað fyrir utan veitingastaðinn Fjallkonuna. Vísir/Einar

Karlmaður sem grunaður er um að hafa stungið mann með hnífi fyrir utan veitingastaðinn Fjallkonuna í miðbæ Reykjavíkur í nótt hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Maðurinn var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur síðdegis í dag. Dómarinn féllst á kröfu lögreglu um að maðurinn yrði látinn sæta gæsluvarðhaldi til föstudags. Þetta staðfestir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í samtali við fréttastofu.

Árásin átti sér stað á öðrum tímanum í nótt fyrir utan veitingastaðinn Fjallkonuna við Hafnarstræti í miðborg Reykjavíkjur. Sá sem særðist hlaut stungusár á kviði og var hann fluttur með sjúkrabíl á Landspítala. Hann liggur nú á gjörgæslu og er ástand hans talið lífshættulegt. 

Nokkrir menn tókust á í slagsmálunum. Þeir eru allir íslenskir. Hins grunaða var leitað af lögreglu í nótt en hann fannst ekki fyrr en á tíunda tímanum í morgun í húsi í austurhluta Reykjavíkur. 

Málið er til rannsóknar og er grunur uppi um að það tengist íkveikju í bifreið í Kópavogi í nótt. Sú íkveikja varð um klukkan tvö. Þetta sagði Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglu í samtali við Vísi. 

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglu miðar rannsókn málsins vel. Þó verði frekari upplýsingar um hana ekki veittar að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×