Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag og byggt á skýrslu Félags hljómplötuframleiðenda.
Í skýrslunni kemur fram að streymi af íslenskri tónlist skilaði 167 milljónum króna í tekjur í fyrra en streymi á erlendri tónlist 763 milljónum.
Ef horft er til hljómplatna, hvers sala jókst í fyrsta sinn frá 2011, námu tekjurnar af íslenskum plötum 44 milljónum en erlendum 50 milljónum.
Eiður Arnarsson, framkvæmdastjóri Félags hljómplötuframleiðenda, segir í samtali við Morgunblaðið að jafnvel þótt tekjur af sölu tónlistar séu að aukast hér á landi þá minnki hlutdeild íslenskrar tónlistar á sama tíma.
Á því séu tvær skýringar.
„Aukningin er nær alfarið í streymi og þar er hlutfallið 82% erlend tónlist á móti 18% íslenskrar. Eftir því sem streymið eykst sígur íslenska hlutdeildin á sama tíma. Það er nú bara þannig að þegar þú labbar inn í plötubúð, ef við ímyndum okkur Spotify sem plötubúð, þar sem eru 50 milljón erlend lög, þá er afskaplega lítill fókus á íslenska tónlist. Fyrir utan þetta hefur sú aukning sem orðið hefur í sölu á hljómplötum öll verið í erlendri tónlist,“ segir Eiður.
Esjan, lag tónlistarkonunnar Bríetar, var það íslenska lag sem mest var streymt í fyrra. Platan hennar Kveðja var í öðru sæti yfir þær plötur sem mest var streymt en sú íslenska plata sem mest var hlustað á var Vögguvísur með Hafdísi Huld.