Skoðun

Hvað eru TikTok og bálka­keðjur og hvernig tengjast þau ferða­þjónustu?

Inga Rós Antoníusdóttir og Ásta Kristín Sigurjónsdóttir skrifa

Nú er heimurinn smám saman að opnast á ný og fólk með uppsafnaða ferðaþrá skipuleggur fyrstu ferðalögin eftir heimsfaraldur. Ferðaþjónustan er loksins að vakna til lífsins og fyrirtækin að skipuleggja markaðsaðgerðir og þjónustuframboð eftir að hafa þurft að endurskipuleggja reksturinn ærlega undanfarið ár. Markhóparnir eru ekki endilega þeir sömu og voru og óskir og þarfir gesta hafa breyst. Þar af leiðandi eru þeir miðlar sem hentuðu best til markaðssetningar fyrir Covid ekki endilega þeir sömu. TikTok er t.d ekki bara danskennsla fyrir börn heldur áhrifamikið markaðstól sem getur nýst ferðaþjónustufyrirtækjum mjög vel í samkeppninni um gestina. Hugtök eins og bálkakeðjur, sem fólk tengir oftar við t.d. rafmyntir en ferðaþjónustu, snúast líka um gagnsæi í gagnaöflun og notkun og geta aukið traust ferðamanna til áfangastaða.

Ferðamálastofa og Íslenski Ferðaklasinn standa fyrir ráðstefnu á morgun, fimmtudaginn 3.júní undir yfirskriftinni Iceland Travel Tech-Nordic Edition og er markmiðið að gefa ferðaþjónustufyrirtækjum færi á að fræðast um nýjungar í tæknimálum og hvernig nýta megi tæknina til aukinnar sjálfbærni í greininni. Fjallað verður um fyrrnefnd atriði en einnig verður fjallað um sjálfvirknivæðingu og snertilausar lausnir sem og forrit sem auðvelda fyrirtækjum að spá fyrir um framtíðina. Þá verður einnig fjallað um upplifunarhönnun og hvað ferðaþjónustan getur lært af tölvuleikjahönnuðum, hvernig við stýrum mögulegri hegðun og hvernig við nýtum notendaupplýsingar og gögn til að þróa enn betur upplifun og þjónustu. Þetta er í þriðja sinn sem Iceland Travel Tech verður haldið og nú jafnframt í þriðju útfærslunni.

Ráðstefna sem átti upptök sín sem hefðbundin ráðstefna og sýning í Hörpu fyrir tveimur árum, breyttist í stafræna ráðstefnu þegar Covid 19 neyddi aðstandendur til að hugsa hlutina upp á nýtt í fyrra og á sér núna enn nýja birtingarmynd sem svokölluð „hybrid“ ráðstefna, bæði í raun og rafheimum. Fjöldi innlendra og erlendra fyrirlesara munu kynna nýjustu strauma og stefnur í tæknimálum ferðaþjónustunnar og býðst öllum áhugasömum að fylgjast með, hvort sem er í Grósku -Hugmyndahúsi (á meðan húsrúm leyfir) eða á netinu, þeim að kostnaðarlausu. Skráning er nauðsynleg en nánari upplýsingar má finna á heimasíðum Ferðamálastofu og Íslenska Ferðaklasans.

Inga Rós Antoníusdóttir er verkefnastjóri stafrænnar þróunar hjá Ferðamálastofu og Ásta Kristín Sigurjónsdóttir er framkvæmdastjóri Ferðaklasans.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×