Innlent

Sagðist ekki hefðu stolið af barni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var kölluð á vettvang um klukkan 22 í gærkvöldi vegna þjófnaðar á rafmagnshlaupahjóli. Atvik máls voru á þá leið að eigandi hjólsins, sem var tíu ára, hafði farið inn í verslun og skilið hjólið eftir fyrir utan.

Þegar barnið kom út aftur var hjólið horfið. 

Barnið komst því ekki heim en móðir þess var komin á staðinn þegar lögreglu bar að garði. 

Skömmu síðar var tilkynnt um mann í nágrenninu sem var á rafmagnshlaupahjóli og með fleiri „muni“ í fórum sínum. Var hann í annarlegu ástandi og viðurkenndi að hafa tekið hjólið ófrjálsri hendi. 

Sagðist hann ekki hefðu tekið hjólið ef hann hefði vitað að eigandinn væri barn.

Barnið kom ásamt móður sinni og staðfesting fékkst á því að um rétt hjól væri að ræða.

Maðurinn verður ákærður fyrir þjófnað, segir í tilkynningu frá lögreglu, en atvikið átti sér stað í hverfi 108 í Reykjavík. 

Nokkru fyrr voru afskipti höfð af drengjum á leikskólalóð í Hafnarfirði. Eru þeir grunaðir um minniháttar eignaspjöll. Málið var unnið með foreldrum og tilkynnt til Barnaverndar.

Þá var tilkynnt um fíkniefnalykt í stigagangi í Breiðholti. Afskipti voru höfð af íbúa, sem framvísaði ætluðum fíkniefnum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×