Íslenski boltinn

MMA glímubrögð í Pepsi Max deildinni en Óli Jóh og Baldur ekki sammála um refsinguna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Djair Parfitt-Williams og Heiðar Ægisson voru eldsnöggir að skipta úr fótbolta yfir í MMA íþróttina í leik Fylkis og Stjörnunnar.
Djair Parfitt-Williams og Heiðar Ægisson voru eldsnöggir að skipta úr fótbolta yfir í MMA íþróttina í leik Fylkis og Stjörnunnar. S2 Sport

Djair Parfitt-Williams tryggði Fylki stig á móti Stjörnunni í gærkvöldi þegar hann jafnaði metin tíu mínútum fyrir leikslok. Strákarnir í Pepsi Max Stúkunni skoðuðu það hvort að Fylkismaðurinn hefði þá átt að vera farinn af velli með rautt spjald.

„Hann var mögulega heppinn að vera ennþá inn á vellinum,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson umsjónarmaður Pepsi Max Stúkunnur í gær og sýndi í kjölfarið atvikið með þeim Djair Parfitt-Williams og Heiðari Ægissyni en það gerðist á 74. mínútu leiksins.

Parfitt-Williams og Heiðar lenti þá saman á miðjum vellinum. Leikmenn stukku til og reyndu að toga þá í sundur. Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dómari var líka fljótur á staðinn og flautaði ótt og títt.

„Flautan hjá Vilhjálmi Alvar virkar alla vega,“ sagði Kjartan Atli og Ólafur Jóhannesson skaut þá inn í: „Hann flautaði nokkrum sinnum í hana en hann vissi ekkert hvað hann var að flauta. Hann bara flautaði,“ sagði Ólafur.

Dómari leiksins og aðrir leikmenn gengu á milli leikmannanna tveggja.S2 Sport

„Þetta er alveg ofboðslega skrýtið atvik. Það er spurning hvort við ættum einhvern MMA sérfræðing til að rýna í þetta því þetta er einhver glíma,“ sagði Baldur Sigurðsson.

„Djair tekur hann eiginlegs einhverju hálstaki og snýr hann niður. Það hlýtur bara að vera rautt spjald,“ sagði Baldur en Ólafur Jóhannsson var ekki alveg á því.

„Nei, þetta er aldrei rautt. Er ekki Heiðar líka með hendina sína utan um hausinn á honum? Þetta er bara svona klafs. Svona á þetta að vera,“ sagði Ólafur.

„Við getum sagt það að þetta er risastór ákvörðun í leiknum af því að Djair skorar síðan,“ sagði Baldur.

Það má horfa á atvikið og það sem var sagt um það í Pepsi Max Stúkunni hér fyrir neðan.

Klippa: Pepsi Max Stúkan: Heppinn að vera áfram inn á vellinum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×