Innlent

Skjala­fals, bíl­þjófnaður og hús­brot

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mikið var um að vera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. 
Mikið var um að vera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.  Vísir/Vilhelm

Bifreið var stolið fyrir utan verslun í Hlíðunum í gær þegar ökumaðurinn skildi bílinn eftir í gangi fyrir utan verslunina. Bifreiðin fannst tveimur tímum síðar og var þjófurinn þá sofandi undir stýri. Hann var í mjög annarlegu ástandi sökum áfengis og fíkniefna og var vistaður í fangaklefa lögreglu í nótt. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Níu ökumenn, sem reyndust undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna, voru stöðvaðir í nótt. Einn þeirra var á 123 km hraða áður en hann var stöðvaður í Árbæ. Annar velti bíl sínum á Vatnsendavegi en varð ekki meint af. Hann var vistaður í fangaklefa og bíður skýrslutöku.

Þá var ökumaður stöðvaður í miðbæ Reykjavíkur og þegar hann var beðinn um að framvísa ökuskírteini framvísaði hann falsað skírteini. Í ljós kom að maðurinn er án ökuréttinda og hefur hann verið kærður fyrir skjalafals og akstur án ökuréttinda.

Afskipti voru höfð af tveimur sem höfðu sofnað úti í nótt, annars vegar í Hlíðum og hins vegar í Breiðholti. Sá sem hafði sofnað í grasbala í Hlíðunum var talsvert ölvaður og orðinn blautur og kaldur eftir að hafa legið úti í rigningunni. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Hinum var komið í húsaskjól.

Bílvelta varð á Hafnarfjarðarvegi við Hamraborg en engum varð meint af. Þá voru þrír handteknir í miðbæ Reykjavíkur grunaðir um að hafa brotist inn í hús og voru þeir vistaðir í fangaklefa. Einn var handtekinn í Hlíðunum vegna eignarspjalla og heimilisofbeldis og var hann vistaður í fangaklefa lögreglu. Hans bíður skýrslutaka þegar af honum rennur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×