Innlent

Voru Covid-smitaðir á toppi Everest

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Heimir og Sigurður á toppi Everest 24. maí.
Heimir og Sigurður á toppi Everest 24. maí. Umhyggja

Sigurður B. Sveinsson og Heimir F. Hallgrímsson, íslensku fjallagarparnir sem náðu á topp Everest um síðustu helgi, greindust með Covid-19 í Nepal gær. Þeir byrjuðu að finna fyrir einkennum í efstu búðum Everest, áður en þeir komust á toppinn, og eru nú í einangrun í grunnbúðum Everest.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félögunum sem send er í gegnum Umhyggju, félag langveikra barna. 

Byrjuðu að hósta í efstu búðum

Sigurður og Heimir náðu tindi Everest klukkan hálf fimm að morgni 24. maí. Þeir greina frá því í tilkynningu að í efstu búðum fjallsins, þeim þriðju og fjórðu, hafi þeir báðir farið að finna fyrir hósta. „Sem okkur fannst skrítið í ljósi þess að við höfðum báðir aðlagast afar vel á undirbúningstímanum og þar sem við vorum komnir með auka súrefni í búðum 3.“

Þeir voru þá staddir í yfir sjö þúsund metra hæð og höfðu því ekki tök á því að fara í Covid-próf, auk þess sem þeir höfðu fengið neikvæða niðurstöðu úr slíku prófi daginn sem þeir lögðu af stað á fjallið.

„Það læddist að okkur sá grunur að við gætum hafa smitast af Covid 19 en þar sem okkur leið vel á þessum tíma töldum við ekki ástæðu til þess að breyta plönum en vorum meðvitaðari og fylgdumst enn betur með heilsu hvors annars,“ segja Sigurður og Heimir í tilkynningu.

Mikið veðravíti í búðum fjögur

Þá lýsa þeir því að ferðalagið hafi verið mikil þrekraun að öðru leyti; veður hafi verið afar slæmt og þeir þurft að dvelja fjórar nætur í búðum tvö, sem standa í 6400 metra hæð. Sú bið hafi tekið sinn toll á líkamann - og til að byrja með hafi þeir talið að dvölin hafi verið „hugsanlega að koma í bakið á okkur“ er þeir byrjuðu að finna fyrir einkennum.

Félagarnir byrjuðu að finna fyrir einkennum í rúmlega sjö þúsund metra hæð. Þeir eru nú í einangrun í grunnbúðum Everest.Umhyggja

„Þegar við komum í búðir 4 á South Cole (7900 metra hæð) tók við okkur mikið veðravíti. 70-80% af tjöldunum voru ónýt og þurfti að bregðast hratt við að tjalda upp á nýtt. Að koma upp nýjum tjaldbúðum tók um 3 klst og var orðið ljóst að hvíldin yrði engin og veður var ekki að lægja líkt og spár gerðu ráð fyrir. Í stað þess að reyna við tindinn 23. maí sl. ákváðum við að bíða til 24. maí sl. í ljósi þess að við áttum auka súrefni sem dyggði í 24 klst,“ segir í tilkynningu.

Mjög slæmur í lungunum

Þeir hafi svo náð á toppinn við ágætar aðstæður en einkennin tekið að sækja í sig veðrið á leiðinni niður.

„Á niðurleiðinni fórum við báðir að finna fyrir aukinni þreytu, hósta og óþægindum. Heimir átti fyrst erfitt niðurleiðar. Í búðum 2 vorum við báðir orðnir afar slappir af hóstaköstum, hausverkjum og annarri þreytu. Okkur grunaði að það væri ekki allt með felldu og við þyrftum að komast sem hraðast niður, sérstaklega þar sem veður var þannig að enga þyrlubjörgun yrði fá þann daginn og líklega ekki næstu daga. Þegar við hófum göngu okkar frá búðum 2 var ljóst að Siggi var mjög slæmur í lungunum og þurftum við að grípa til súrefnis. Þetta var erfiður dagur í gegnum Khumbu Icefall en eins og fyrri daginn tók Siggi þennan dag á hnefanum og komumst við allir heilir niður í grunnbúðir 26. maí sl.“

Heimir og Sigurður eru tíundi og ellefti Íslendingurinn til að ná toppi Everest.

Í einangrun í grunnbúðum

Þennan sama dag, þ.e. í gær, fóru þeir í nýtt Covid-próf og greindust báðir jákvæðir fyrir veirunni. Þeir segja líðan sína betri í dag en dagana þrjá áður. Þeir hafi fengið læknisaðstoð og dvelja nú í einangrun í grunnbúðum Everest.

„Höfum það ágætt hérna og erum enn að móttaka það að hafa komist á hæsta tind heims þrátt fyrir allt mótlætið sem við höfum þurft að kljást við eins og veðurfar, meiðsl og veikindi.

Við erum sannfærðir um að við hefðum ekki getað þetta nema vegna þess gífurlega stuðnings sem við fundum fyrir að heiman og frá heimamönnum hérna í Nepal. Styrktarferð tveggja Íslendinga fyrir langveik börn flaug hratt um tjaldbúðir Everest og fundum við fyrir gífurlegum áhuga og stuðningi hvar sem við stoppuðum,“ segja Sigurður og Heimir.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Tilkynningin í heild:

Við félagarnir Sigurður B. Sveinsson og Heimir F. Hallgrímsson náðum tindi Everest klukkan 04:30 þann 24. maí sl. líkt og fram hefur komið. Í efstu búðum Everest, þ.e. búðum 3 og 4 fórum við báðir að finna fyrir hósta einkennum sem okkur fannst skrítið í ljósi þess að við höfðum báðir aðlagast afar vel á undirbúningstímanum og þar sem við vorum komnir með auka súrefni í búðum 3.

Á þessum tíma og stað (yfir 7000 metra hæð) var þó enginn möguleiki á að taka Covid 19 prufu og við höfðum auk þess tekið Covid 19 prufu sama dag og við fórum á stað á fjallið sem var neikvætt hjá okkur báðum. Það læddist að okkur sá grunur að við gætum hafa smitast af Covid 19 en þar sem okkur leið vel á þessum tíma töldum við ekki ástæðu til þess að breyta plönum enn vorum meðvitaðari og fylgdumst enn betur með heilsu hvors annars.

Þetta ár á Everest hefur verið mjög erfitt veðurfarslega. Við þurftum t.a.m. að vera fjórar nætur í búðum 2 (6400 metra hæð) og bíða af okkur veður, þar sem klifrarar reyna að vera ekki meira en eina til tvær nætur fyrir tilraun á tindinn. Það tók líkamlega mikið á að þurfa vera lengur í búðum 2 ofan á langan undirbúningstíma og biðarinnar í grunnbúðum (5400 metra hæð). Við töldum að þessi langi tími í mikilli hæð væri hugsanlega að koma í bakið á okkur.

Þegar við komum í búðir 4 á South Cole (7900 metra hæð) tók við okkur mikið veðravíti. 70-80% af tjöldunum voru ónýt og þurfti að bregðast hratt við að tjalda upp á nýtt. Að koma upp nýjum tjaldbúðum tók um 3 klst og var orðið ljóst að hvíldin yrði engin og veður var ekki að lægja líkt og spár gerðu ráð fyrir. Í stað þess að reyna við tindinn 23. maí sl. ákváðum við að bíða til 24. maí sl. í ljósi þess að við áttum auka súrefni sem dyggði í 24 klst.

Ákvörðun okkar að bíða í sólarhring var góð ákvörðun. Ekki var jafn hvasst á toppi Everest þann 24. maí líkt og daginn áður. Einnig var minni umferð af klifrurum sem gerði það að verkum að við festumst ekki í röð eins og hefur gerst á fjallinu þegar veðurgluggar hafa verið fáir.

Á niðurleiðinni fórum við báðir að finna fyrir aukinni þreytu, hósta og óþægindum. Heimir átti fyrst erfitt niðurleiðar. Í búðum 2 vorum við báðir orðnir afar slappir af hóstaköstum, hausverkjum og annarri þreytu. Okkur grunaði að það væri ekki allt með felldu og við þyrftum að komast sem hraðast niður, sérstaklega þar sem veður var þannig að enga þyrlubjörgun yrði fá þann daginn og líklega ekki næstu daga. Þegar við hófum göngu okkar frá búðum 2 var ljóst að Siggi var mjög slæmur í lungunum og þurftum við að grípa til súrefnis. Þetta var erfiður dagur í gegnum Khumbu Icefall en eins og fyrri daginn tók Siggi þennan dag á hnefanum og komumst við allir heilir niður í grunnbúðir 26. maí sl.

Sama dag tókum við nýja Covid 19 prufu og reyndist grunur okkar réttur að við höfðum báðir fengið Covid 19. Líðan okkar er betri í dag en síðustu 3 daga áður. Við höfum leitað læknis hérna í grunnbúðum og erum núna í einangrun fastir í grunnbúðum Everest. Höfum það ágætt hérna og erum enn að móttaka það að hafa komist á hæsta tind heims þrátt fyrir allt mótlætið sem við höfum þurft að kljást við eins og veðurfar, meiðsl og veikindi.

Við erum sannfærðir um að við hefðum ekki getað þetta nema vegna þess gífurlega stuðnings sem við fundum fyrir að heiman og frá heimamönnum hérna í Nepal. Styrktarferð tveggja Íslendinga fyrir langveik börn flaug hratt um tjaldbúðir Everest og fundum við fyrir gífurlegum áhuga og stuðningi hvar sem við stoppuðum.

Söfnunin fyrir Umhyggju - félags langveikra barna stendur enn yfir til 11. júni nk. og munum við Siggi nýta tíma í veikindum okkar að koma inn nýju efni frá efri búðum og toppi Everest og halda söfnuninni gangandi!

Kíkið því endilega inn á Facebook síðuna “Með Umhyggju á Everest” eða Instagram síðu Umhyggju þar sem þið finnið styrktarhlekk á söfnunina.

Kær kveðja úr grunnbúðum Everest, Heimir & Siggi 🙏❤️




Fleiri fréttir

Sjá meira


×