Íslenski boltinn

„Erum stoltar af því að á 93. mínútu var Breiðablik að tefja“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óskar Smári Haraldsson stýrir Tindastóli ásamt Guðna Þór Einarssyni.
Óskar Smári Haraldsson stýrir Tindastóli ásamt Guðna Þór Einarssyni. vísir/sigurjón

Óskar Smári Haraldsson, annar þjálfara Tindastóls, kvaðst ánægður með frammistöðu síns liðs gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks í kvöld. Stólarnir veittu Blikum verðuga mótspyrnu en urðu að sætta sig við 1-0 tap.

„Þetta er vissulega svekkjandi. Blikar hittu á góðan leik, þær voru mjög góðar í dag og réðum illa við þær á löngum köflum þar sem við vorum í miklum eltingarleik. Þetta er pínu fúlt en við erum stoltar af því að á 93. mínútu var Breiðablik að tefja. Það segir svolítið mikið um það hvað við gáfum í leikinn. Auðvitað er þetta súrt en ekkert til að dvelja yfir,“ sagði Óskar við Vísi eftir leikinn í Kópavoginum í kvöld.

Murielle Tiernan fékk besta færi Tindastóls á 21. mínútu. Hún slapp þá í gegnum vörn Breiðabliks en reyndi að gefa á Hugrúnu Pálsdóttur í stað þess að skjóta. Þótt það hafi ekki gengið var Óskar á því að Murielle hafi tekið rétta ákvörðun.

„Hugrún var í frábæru hlaupi og mér sýndist Jackie [Jacqueline Altschuld] líka vera þarna. Auðvitað gat hún slúttað sjálf enda frábær slúttari en þetta er það sem Murielle snýst um. Hún er mikill liðsfélagi og henni fannst annar leikmaður vera í betra færi og þess vegna sendi hún boltann. Það var rétt hjá henni en við vorum óheppnar að ná ekki að pota boltanum inn á því augnabliki,“ sagði Óskar.

„Þetta gerðist hratt en ég held að hún hafi tekið rétta ákvörðun. En það er auðvitað auðvelt að vera vitur eftir á.“

Blikar pressuðu stíft í fyrri hálfleik en Stólunum gekk betur að halda Íslandsmeisturunum í skefjum í upphafi þess seinni.

„Þær halda boltanum vel og reyna að færa hann hratt á milli kanta. Við vissum að við mættum ekki lenda mikið einn á einn gegn Áslaugu Mundu [Gunnlaugsdóttur] og Öglu Maríu [Albertsdóttur] því þær eru illviðráðanlegar í þeirri stöðu. Við reyndum að þétta utan á og sýna þeim inn á miðjuna en með því að spila boltanum hratt aftur inn á miðjuna ýttu þær okkur aftarlega,“ sagði Óskar.

„Í stórum kafla í fyrri hálfleik vorum við alltof aftarlega en í seinni hálfleik fórum við framar, nær þeim og í návígin og þá gekk þetta betur. Við gáfum meira pláss fyrir aftan okkur en við erum með Amber [Michel] sem er frábær og það er hraði í varnarlínunni okkar.“


Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×