Mótmælafundurinn hefst klukkan 20 í kvöld og munu þau Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, flytja ávörp.
Búið er að girða af svæðið fyrir utan Hörpu vestan Kalkofnsvegar og fer mótmælafundurinn því fram hinum megin götunnar, fyrir utan Seðlabankann.

Þessi fyrsti fundur utanríkisráðherranna fer fram í Hörpunni en þeir eru báðir staddir á landinu vegna fundar Norðurskautsráðsins sem fer fram á morgun en þar munu Rússar taka við formennsku í ráðinu af Íslendingum.
Ekki er vitað hver tilgangur fundarins er nákvæmlega en ljóst er að kollegarnir munu hafa um ýmislegt að ræða. Það hefur andað ansi köldu á milli stórveldanna undanfarið eftir aukinn hernað Rússa við landamæri Úkraínu og hafa Bandaríkjamenn meðal annars gripið til viðskiptaþvingana gegn þeim.
Kjarnorkuvopn í kafbátum á norðurslóðum
Í yfirlýsingu hinna ýmsu félagasamtaka er bent á að einn megintilgangur Norðurlandaráðs sé að stuðla að friðsamlegum samskiptum ríkja heims á norðurslóðum og að vinna gegn vígvæðingu og hernaðarumsvifum.
Bandaríkin og Rússland eru þau tvö ríki sem eiga meginþorrann af kjarnorkuvopnum heimsins.

„Hluti þessa vopnabúrs er geymdur um borð í kafbátum sem sigla um heimsins höf, þar á meðal í viðkvæmri náttúru norðurslóða. Ljóst er að slys tengt slíkum kafbátum gæti haft skelfilegar afleiðingar fyrir umhverfi og líf íbúa svæðisins,“ segir í yfirlýsingunni.
Félagasamtökin sem setja nafn sitt við áskorunina eru:
Alda lýðræðisfélag
Alþýðusamband Íslands
Barnaheill
Íslandsdeild Amnesty International
Kvenréttindafélag Íslands Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
Náttúruverndarsamtök Íslands Samtök hernaðarandstæðinga
Soka Gakkai International á Íslandi
Öryrkjabandalagið