Erlent

Britney mun ávarpa dómara í júní

Samúel Karl Ólason skrifar
Söngkonan Britney Spears hefur að undanförnu barist fyrir auknu sjálfræði.
Söngkonan Britney Spears hefur að undanförnu barist fyrir auknu sjálfræði. AP/Chris Pizzello

Söngkonan víðfræga Britney Spears mun ávarpa dómara sjálf í júní, vegna viðleitni hennar til að öðlast aukið sjálfræði og frelsi frá föður sínum. Ekki liggur þó fyrir hvað hún stefnir á að segja fyrir dómi.

Söngkonan hefur verið stórstjarna frá því hún var táningur og hefur róstusamt líf hennar oft verið svo gott sem í beinni útsendingu.

Spears hefur ekki komið fram opinberlega frá því í október 2018, samkvæmt frétt Reuters.

Spears var nauðungavistuð á geðdeild árið 2008 og í kjölfarið svipt sjálfræði og fjárræði. Faðir hennar og lögfræðingur hafa gegnt hlutverki lögráðamanna hennar síðan og tekið ákvarðanir um bæði líf og feril fyrir hennar hönd.

Lögfræðingurinn Andrew Wallet steig til hliðar árið 2019 og faðir Spears tók þá alfarið við. Hann hætti fljótt í kjölfarið að stýra lífi dóttur sinnar og vísaði til heilsuvandræða sinna. Hann hélt þó völdum sínum yfir fjármálum hennar.

Spears mótmælti því í ágúst í fyrra að faðir hennar tæki aftur við sem lögráðamaður hennar og krafðist hún þess sömuleiðis skömmu síðar að fyrirtækið Bessemer Trust tæki við sem fjárvörsluaðili hennar.

Henni varð þó ekki að ósk sinni og var kröfu hennar vísað frá í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×