Viðskipti innlent

Lyfja kaupir apótek í Skeifunni af Högum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju.

Lyfja hefur náð samkomulagi við Haga um kaup á rekstri Reykjavíkur apóteks í Skeifunni. Apótekið var opnað í febrúar í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lyfju. Apótekið var áður í eigu Haga en kaupin eru með fyrirvara um afstöðu Samkeppniseftirlitsins.

Lyfja mun taka yfir réttindi starfsmanna og mun til framtíðar styðja við áframhaldandi uppbyggingu apóteksins. Lyfja er 70% í eigu SÍA III og 30% í eigu einkafjárfesta. SÍA III er framtakssjóður sem er í eigu lífeyrissjóða, fjármálafyrirtækja og fagfjárfesta. Einkafjárfestarnir eru tveir, Ingi Guðjónsson, annar tveggja stofnanda Lyfju og Daníel Helgason, fjárfestir. Lyfja rekur 45 apótek og útibú um allt land.

„Við höfum saknað þess að vera með apótek í Skeifunni. Skeifan er eitt mest sótta verslunarsvæði landsins og við höfum trú á því að sú staðsetning henti vel viðskiptavinum,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Lyfju. Hún býður reynslumikið starfsfólk apóteksins velkomið til starfa.

Finnur Oddsson, forstjóri Haga, segir söluna í samræmi við stefnu fyrirtækisins um að einbeita sér að kjarnastarfsemi á dagvöru- og eldsneytismarkaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×