Innlent

Skora á borgarstjórn að falla frá áformum um lækkun hámarkshraða

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Sitt sýnist hverjum um áform um breyttan umferðahraða í Reykjavík.
Sitt sýnist hverjum um áform um breyttan umferðahraða í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, mótmælir harðlega áformum meirihluta borgarstjórnar um að lækka hámarkshraða á öllum götum í umsjá borgarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Verði. Fulltrúaráðið heldur því fram að áformin muni að óbreyttu ýta umferðinni frekar inn í íbúðahverfi sem verði til þess að ógna umferðaröryggi allra vegfarenda, líkt og það er orðað í tilkynningunni.

„Reynslan hefur sýnt, að þegar þrengt er að umferð á tengibrautum og stofnleiðum, leitar umferð frekar inn í íbúðahverfin. Skýrt dæmi um þetta er frá árinu 2014, þegar borgaryfirvöld þrengdu að umferð á Hofsvallagötu. Þetta varð til þess, að ökutækjum fjölgaði um 1.000 á sólarhring í nærliggjandi íbúðargötum og er það samkvæmt talningu borgaryfirvalda sjálfra,“ segir í tilkynningunni.

Þá er því einnig haldið fram að breytingarnar séu boðaðar undir því yfirskini að lækka eigi umferðarhraða til að draga úr svifryksmengun. „Þrif á götum borgarinnar hafa ekki verið nægileg og það þarf að þrífa götur Reykjavíkur oftar en 1-2 sinnum á ári. Það væri nær að leggja frekari áherslu á þrif á stofnbrautum. Auk þess mun enn betri snjómokstur frekar draga úr notkun nagladekkja,“ segir í tilkynningunni.

Á þessum forsendum skorar Vörður á borgaryfirvöld að falla frá áformum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×