Innlent

Grímulaus og í annarlegu ástandi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla stöðvaði í nótt ökumann sem reyndi að villa á sér heimildir. 
Lögregla stöðvaði í nótt ökumann sem reyndi að villa á sér heimildir.  Vísir/Vilhelm

Lögregla var kölluð til rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi vegna manns í annarlegu ástandi í verslun í miðborginni. Var tekið fram að maðurinn væri grímulaus og lögregla beðin um að vísa honum út þegar á staðinn var komið.

Þá var tilkynnt um mann sem var að reyna að komast inn í ólæstar bifreiðar í vesturhluta borgarinnar klukkan að verða fjögur í nótt en meintur gerandi var handtekinn og færður á lögreglustöð. Málið er í rannsókn.

Snemma í gærkvöldi var tilkynnt um ölvaða menn í slagsmálum í sama umdæmi en þegar á vettvang var komið vildi enginn kannast við að hafa verið í áflogum.

Lögregla sinnti einni tilkynningu vegna vinnuslyss í nótt en þar reyndist maður hafa slasast á fæti í Hafnarfirði. Hann var fluttur til skoðunar en meiðsl talin minniháttar.

Í Kópavogi var tilkynnt um að þjófavarnakerfi hefði farið í gang í fyrirtæki og þegar lögregla mætti á staðinn voru ummerki um að farið hefði verið inn í húsnæðið en málið er í rannsókn.

Þá hafði lögregla, að vanda, afskipti af nokkrum ökumönnum sem voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum og/eða án réttinda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×