Innlent

Styrkur svif­ryks langt yfir heilsu­verndar­mörkum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Svifriksmælar á Grensásvegi.
Svifriksmælar á Grensásvegi. Vísir/Vilhelm

Styrkur svifryks var rúmlega tvöfalt hærri en heilsuverndarmörk gera ráð fyrir á mælistð við Grensásveg í morgun. Hægur vindur er í borginni, götur þurrar og búist við svipuðum aðstæðum næstu daga.

Uppspretta svifryks er uppspænt malbik, jarðvegsagnir, salt og sót úr útblæstri bifreiða.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að styrkur köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) og svifryks (PM10) hafi farið hækkandi í borginni í dag samkvæmt mælingum í mælistöðvunum við Grensásveg og Bústaðaveg/Háaleitisbraut.

Klukkan 11 var styrkur svifryks á Grensásvegi 115 míkrógrömm á rúmmetra og köfnunarefnisdíoxíðs 78 míkrógrömm á rúmmetra. Í mælistöðinni í Bústaðaveg/Háaleitisbraut var styrkur svifryks 86 míkrógrömm á rúmmetra og köfnunarefnisdíoxíðs 21 míkrógrömm á rúmmetra.

Heilsuverndarmörk svifryks eru 50 míkrógrömm á rúmmetra en 75 míkrógrömm á rúmmetra fyrir köfnunarefnisdíoxíð.

Mengun frá útblæstri bifreiða

Köfnunarefnisdíoxíðmengun kemur frá útblæstri bifreiða og er mest á morgnana og í eftirmiðdaginn þegar umferð er mest. Áhugavert er að hugsa til þess að tíu manna samkomubann er í gildi og skólar utan leikskóla komnir í páskafrí. Umferð í Reykjavík er því minni en allajafna á miðvikudegi.

Köfnunarefnisdíoxíð veldur ertingu í lungum og öndurvegi. Uppspretta svifryks er uppspænt malbik, jarðvegsagnir, salt og sót úr útblæstri bifreiða.

„Nú er hægur vindur og götur þurrar og er búist við svipuðum veðurfarsaðstæðum næstu daga og því líkur á svifryks- og köfnunarefnisdíoxíðmengun einkun við umferðargötur. Góðar líkur eru þó á því að umferð verði róleg í borginni um páskahátíðina og fólk fari á milli staða með öðru móti. Þannig geta þau sem eru viðkvæm í öndunarfærum og börn notið útivistar betur,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Fylgjast má með loftgæðum á landinu hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×