Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari segir í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis vegna málsins að albönsk dómsmálayfirvöld hafi árið 2015 óskað framsals á albönskum karlmanni vegna afplánunar refsingar á grundvelli refsidóms sem hann hlaut í Albaníu fyrir ránsbrot.
Beiðnin hafi verið tekin til afgreiðslu hjá dómsmálaráðuneytinu og í kjölfarið hjá embætti ríkissaksóknara á grundvelli laga um framsal og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984.
Enn eftirlýstur vegna refsidóms
„Þar sem beiðni albanskra yfirvalda uppfyllti ekki skilyrði laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984 og alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að var beiðninni hafnað árið 2017.“
Þá staðfestir ríkissaksóknari að karlmaðurinn sé enn eftirlýstur af albönskum yfirvöldum vegna ofangreinds refsidóms.
Greint var frá því á blaðamannafundi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á föstudag að karlmaður á fertugsaldri hefði játað morðið. Hann hefði neitað til að byrja með en svo verið kominn með bakið upp við vegg og játað. Hann væri albanskur, líkt og hinn látni, og hefði komið til Íslands fyrir sjö til átta árum.
Telja hinn látna einnig tengjast skipulagðri brotastarfsemi
Lögregla sagði einnig að hún teldi að morðið hefði verið skipulagt og samverknaður væri til skoðunar. Lögregla væri með einstakling grunaðan um að hafa ekið bíl og verið á staðnum þegar morðið var framið.
Þá kom fram að lögregla teldi hinn látna einnig tengjast skipulagðri brotastarfsemi. Alls eru nú fjórtán aðilar með réttarstöðu sakborninga í málinu og koma þeir frá tíu löndum. Íslandi, Albaníu, Rúmeníu, Spáni, Ítalíu, Portúgal, Eistlandi, Serbíu, Litháen og Hvíta-Rússlandi.
Vísir hefur sent ríkissaksóknara og dómsmálaráðuneytinu fyrirspurn í framhaldi af fyrsta svari ríkissaksóknara til að fá á hreint að hvaða leyti skilyrði voru ekki uppfyllt fyrir framsali hins meinta morðingja til Albaníu árið 2015.